Píanósnillingurinn Albert Mamriev leikur Beethoven og Wagner

05. júní 2022
17:00
Uppselt

Sónötur op. 109 og 110 nokkrar umritanir Franz Liszt úr óperum Wagners

Tónleikar  píanósnillingsins Alberts Mamriev eru á vegum Richard Wagnerfélagsins á Íslandi og hluti af Wagnerdögum í byrjun júní.

Á efnisskrá sónötur Beethovens op. 109 og 110 nokkrar umritanir Franz Liszt úr óperum Wagners, m.a. úr Tristan und Isolde, Hollendingnum fljúgandi, Tannhäuser og Parsifal.

 

Albert Mamriev fæddist í Dagestan og hóf píanónám hjá föður sínum, Jankel Mamriev en lærði síðan hjá Alexander Bakulov og Sergei Dorensky í Moskvu og hjá Arie Vardi í Tel Aviv og Hannover. Fjölskyldan fluttist til Ísrael og er Mamriev ísraelskur ríkisborgari. Nú býr hann í Hannover.

 

Eftir að hafa sigrað Alþjóðlegu píanókeppnina í Madrid árið 1998 hefur Albert Mamriev haslað sér völl sem einn fjölhæfasti píanóleikari sinnar kynslóðar. Upptökur hans af öllum umritunum Franz Liszt úr óperum Wagners hafa vakið athygli víða, sömuleiðis upptakan af frumflutningi píanókonserts Ami Maayani með Sinfóníuhljómsveitinni í Peking  enda heillast Albert Mamriev mjög af stílauðgi og margbreytileika píanótónsmíða  frá síðrómantík til avant-garde og nýtur þess að takast á við tæknilegar og túlkunarlegar áskoranir sem þar er að finna.

 

Auk verðlaunanna í Madrid hefur Albert Mamriev unnið til verðlauna í fjölda píanókeppna, m.a. Gina Bachauer í Salt Lake City, China International í Peking, Citta Di Marsala á Sikiley, Tunbridge Wells í London, Morice Clairmont" í Tel-Aviv,  "Vianna Da Motta" í Lissabon, "Scottish international" í Glasgow og fleiri mætti telja.

 

Albert Mamriev hefur komið fram með fjölda hljómsveita og einnig sem einleikari á tónleikum víða um heim í þekktum tónleikasölum og á virtum tónlistarhátíðum. Hann er einnig eftirsóttur sem kennari og hefur verið með master classa víða um heim.

 

Albert Mamriev hefur setið í dómnefndum í fjölmörgum alþjóðlegum píanókeppnum. Árið 2009 stofnaði hann „Neue Sterne“ píanókeppnina í Wernigerode.

 

Frá  2017 er Mamriev rektor og prófessor við tónlistarakademíuna Neue Sterne í Hannover.