Beethoven í 250 ár | 7

24. nóvember 2020
19:30
Miðaverð:
3.500 - 4.400 kr.

32 píanósónötur á 9 tónleikum í Salnum.

Salurinn og landslið píanóleikara á Íslandi fagna 250 ára afmæli Ludwigs van Beethoven með tónleikaröðinni Beethoven í 250 ár.

 

Beethoven samdi 32 píanósónötur sem spanna nær alla ævi hans eða árin 1795 – 1827. Nú hafa píanóleikarar á Íslandi tekið sig saman og sameinast um að flytja allar píanósónöturnar á 9 tónleikum í Salnum.

 

Efnisskrá:

Píanósónata nr. 6 í F-dúr, opus 10 nr. 2
Píanóleikari:       Hrönn Þráinsdóttir         

 

Píanósónata nr. 15 í D-dúr (Pastoral)
Píanóleikari:       Guðrún Dalía Salómonsdóttir

                                            

Hlé

 

Píanósónata nr. 17 í d-moll, opus 31 nr. 2 (Tempest)    
Píanóleikari:       Andrew J. Yang

Píanósónata nr. 18 í Es-dúr, opus 31 nr. 3 (The Hunt)  
Píanóleikari:       Helga Bryndís Magnúsdóttir

Arnar Jónsson leikari les stutta pistla úr þýðingum Árna Kristjánssonar píanóleikara um Beethoven á undan hverri sónötu.

 

Um flytjendur:

Andrew J. Yang hefur komið víða fram sem píanóleikari í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu. Hann hefur hlotið verðlaun í fjölmörgum alþjóðlegum keppnum má þá meðal annars nefna Alþjóðlegu Flame keppnina í París 2019. Píanóleikarinn Ruth Slenczynska, sem var nemandi Rakhmanínoffs, lýsir Andrew sem hæfileikaríkum, einlægum tónlistarmanni og alvarlegum listamanni. Honum hefur jafnframt verið lýst í The Examiner sem „undrabarni með tilfinningasvið allt frá innhverfri hugleiðingu að villtu brjálæði.” Andrew er hluti af Vala-Yang Duo ásamt kærustu sinni Ernu Völu Arnardóttur. Þau koma reglulega fram saman á tónleikum og nýlega stofnuðu þau einnig Íslenska Schumannfélagið.

Guðrún Dalía Salómonsdóttir stundaði píanónám við Tónlistarskólann í Reykjavík og útskrifaðist frá Tónlistarháskólanum í Stuttgart 2007. kemur reglulega fram sem einleikari, í kammermúsík og sem meðleikari söngvara. Síðar stundaði hún framhaldsnám í París. Guðrún hefur hlotið fjölda styrkja og viðurkenninga og leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit unga fólksins og á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Guðrún Dalía starfar sem meðleikari við Tónlistarskóla Garðabæjar.

 

Helga Bryndís Magnúsdóttir nam við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þar einleikara og kennaraprófi. Hún stundaði framhaldsnám í Vínarborg og Helsinki. Helga er virk í íslensku tónlistarlífi, hún hefur leikið nokkur einleiksprógrömm, í kammermúsik ýmiskonar, unnið með söngvurum og er meðlimur í Caput hópnum. Hún hefur leikið með hljómsveitum einleikskonserta og gefið út geisladisk með Carnavali og Fantasíu eftir Robert Schumann. Hún starfaði áður sem kórstjóri og organisti en starfar nú sem meðleikari við tónlistarskólana í Kópavogi, Reykjanesbæ og Listaháskólann auk reglulegs tónleikahalds.

 

Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari stundaði nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Í Þýskalandi stundaði hún nám við tónlistarháskólann í Freiburg og síðar við tónlistarháskólann í Stuttgart. Í Freiburg lauk hún mastersgráðu í píanóleik og píanókennaranámi og í Stuttgart mastersgráðu við Ljóðasöngdeild skólans. Hrönn hefur komið fram á tónleikum víða sem einleikari og meðleikari. Hún hefur verið virk í uppeldisstarfi ungra söngvara, verið tónlistarstjóri uppfærslna síðustu ára hjá óperudeild Söngskólans í Reykjavík. Hrönn er kennari við Söngskólann í Reykjavík og við MÍT, Menntaskóli í tónlist.

 

Beethoven í 250 ár er styrkt af Lista- og menningarráði Kópavogs, Mennta- og menningarmálaráðuneyti – Tónlistarsjóði og Tónlistarfélagi Reykjavíkur.