Beethoven í 250 ár | 7

13. október 2021
19:30
Uppselt

250 ára afmæli Ludwigs Van Beethoven í Salnum

Salurinn og landslið píanóleikara á Íslandi fagna 250 ára afmæli Ludwigs van Beethoven með tónleikaröðinni Beethoven í 250 ár.

 

Beethoven samdi 32 píanósónötur sem spanna nær alla ævi hans eða árin 1795 – 1827. Nú hafa píanóleikarar á Íslandi tekið sig saman og sameinast um að flytja allar píanósónöturnar á 9 tónleikum í Salnum.

 

Efnisskrá:

Píanósónata nr. 15 í D-dúr (Pastoral)
Píanóleikari:       Guðrún Dalía Salómonsdóttir

                                            
Píanósónata nr. 17 í d-moll, opus 31 nr. 2 (Tempest)    
Píanóleikari:       Guðríður S. Sigurðardóttir

Píanósónata nr. 18 í Es-dúr, opus 31 nr. 3 (The Hunt)  
Píanóleikari:       Helga Bryndís Magnúsdóttir

Arnar Jónsson leikari les stutta pistla úr þýðingum Árna Kristjánssonar píanóleikara um Beethoven á undan hverri sónötu.

 

Um flytjendur:

Guðrún Dalía Salómonsdóttir stundaði píanónám við Tónlistarskólann í Reykjavík og útskrifaðist frá Tónlistarháskólanum í Stuttgart 2007. kemur reglulega fram sem einleikari, í kammermúsík og sem meðleikari söngvara. Síðar stundaði hún framhaldsnám í París. Guðrún hefur hlotið fjölda styrkja og viðurkenninga og leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit unga fólksins og á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Guðrún Dalía starfar sem meðleikari við Tónlistarskóla Garðabæjar.

Guðríður Steinunn Sigurðardóttir hefur verið virk í tónlistarflutningi hér heima og erlendis í fjóra áratugi. Hún hefur komið fram sem píanóleikari víða um land með ýmsum hljóðfæraleikurum, söngvurum og kórum en einnig sem einleikari. Erlendis hefur Guðríður leikið á tónleikum í Kanada, Bandaríkjunum, Þýskalandi, Sviss og á öllum Norðurlöndum. Guðríður hefur komið að skipulagningu ýmissa tónlistarviðburða og lauk MBA námi í viðskiptafræðum frá Háskóla Íslands vorið 2007. Jafnframt tónleikahaldi kennir Guðríður píanóleik við Tónlistarskóla Kópavogs þar sem hún er deildarstjóri píanódeildar og starfar sem meðleikari. 

Helga Bryndís Magnúsdóttir nam við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þar einleikara og kennaraprófi. Hún stundaði framhaldsnám í Vínarborg og Helsinki. Helga er virk í íslensku tónlistarlífi, hún hefur leikið nokkur einleiksprógrömm, í kammermúsik ýmiskonar, unnið með söngvurum og er meðlimur í Caput hópnum. Hún hefur leikið með hljómsveitum einleikskonserta og gefið út geisladisk með Carnavali og Fantasíu eftir Robert Schumann. Hún starfaði áður sem kórstjóri og organisti en starfar nú sem meðleikari við tónlistarskólana í Kópavogi, Reykjanesbæ og Listaháskólann auk reglulegs tónleikahalds.

 

Beethoven í 250 ár er styrkt af Lista- og menningarráði Kópavogs, Mennta- og menningarmálaráðuneyti – Tónlistarsjóði og Tónlistarfélagi Reykjavíkur.