Tíbrá tónleikaröð | Tvær konur, tvö píanó

01. nóvember 2018
20:00
Uppselt

Tvær leiðandi jazzkonur, önnur frá Þýskalandi og hin frá Íslandi setjast við tvo flygla og samtalið hefst. Julia Hülsmann og Sunna Gunnlaugsdóttir flytja eigin tónsmíðar og vega salt milli melódíu, stemmningar og hins óvænta í Tíbrá tónleikaröðinni.

Julia er á mála hjá ECM útgáfunni og hlaut elstu og virtustu jazz viðurkenningu Þýskalands, SWR Jazzpreis árið 2016. Sunna hlaut tónlistarverðlaunin sem flytjandi ársins sama ár og var tilnefnd aftur í ár. Sunna er meðal þeirra íslensku jazzleikara sem hafa sig mest frammi á erlendri grundu. 

Sunna og Julia léku fyrst saman á Play Nordic hátíðinni í Berlín 2014. Árið 2016 komu þær fram á Jazzhátíð Reykjavíkur og 2017 léku þær aftur í Berlín, á Piano Salon og á listahátíðinni í Münsterland.

Hér má hlýða á upptöku frá tónleikum með þeim Sunnu og Juliu.

Sunna Gunnlaugsdóttir er þekkt tónskáld og píanóleikari bæði hér á landi sem og erlendis. Hún útskrifaðist frá William Paterson College í New Jersey (USA) árið 1996 og flutti til New York þar sem hún var virkur þátttakandi jazz senunnar. The Village Voice sögðu hana vera glæsilegan nýliða. Eftir útgáfu fjögurra platna ferðaðist hún til Bandaríkjanna, Kanada, Evrópu og Japan. Eftir heimkomuna stofnaði hún tríó með bassaleikaranum Þorgrími Jónssyni og trommaranum og eiginmanninum Scott McLemore.  Árið 2012 kom tríóið fram á Jazzhátíð Oslóar sem sérstakir gestir ásamt norska saxófónleikaranum Tore Brunborg og ári síðar komu þau fram á Nordic Cool hátíðinni í Kennedy Center í Washington auk þess að fara í tónleikaferð um Norður-Ameríku. Hljómplatan hennar Distilled var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna í fjórum flokkum og var á lista All About Jazz sem það besta árið 2013. Sunna Gunnlaugsdóttir var valin flytjandi ársins á íslensku tónlistarverðlaununum 2016.

Julia Hülsmann er öflugur þátttakandi í þýsku jazz senunni. Hún hefur vakið athygli um allan heim fyrir einstaka rödd sem tónskáld og píanóleikari. Útgáfur hennar undir merkjum ECM, The End of Summer, Imprint og Full view  hafa vakið mikla athygli. Hún útskrifaðist árið 1996 frá Hochschule der Kunste í Berlín og hóf ferilinn sem leiðari á jazz klúbbum og á hátíðum í Þýskalandi. Árið 2003 hlaut hún þýsku jazzverðlaunin fyrir plötuna Scattering Poems þar sem hún samdi tónlist við ljóð E.E.Cummings og flutt voru af söngvaranum Rebekku Bakken. Árið 2007 kom hún fram með Strengjakvartett Gerðar Gunnarsdóttur á Jazzhátíðinni í Berlín og hóf þá samstarf hennar við íslenska tónlistarmenn. Julia er einnig virkur talsmaður jazzins en hún er stofnandi JazzMusikerAufruf og árið 2012 var hún formaður Þýska tónlistarfélagsins.

Áskrift
Ef keyptir eru miðar á þrenna tónleika eða fleiri í Tíbrá fæst 20% afsláttur af miðaverði.

minna logo.JPG                  Kopavogur minna logo.jpg                 Tíbrá toyota.bmp