Brautryðjendur 4 | Einsöngsperlur og óperusmellir

11. október 2019
20:00
Uppselt

Tónleikar tileinkaðir Kristni Hallssyni, Svölu Nielsen og Guðmundi Guðjónssyni.

Fjórðu tónleikarnir sem haldnir eru í Salnum í tónleikaröðinni Brautryðjendur. Á hverjum tónleikum er fjallað um þrjá brautryðjendur í óperusöng á Íslandi. Tónleikarnir eru að þessu sinni tileinkaðir stórsöngvurunum Kristni Hallssyni, Svölu Nielsen og Guðmundi Guðjónssyni. Þau voru í hópi fremstu íslenskra óperusöngvara fyrr á árum, og meðal brautryðjenda í íslensku tónlistarlífi. Farið verður yfir feril þessara merku söngvara og sungið úr glæsilegri söngskrá þeirra, bæði íslensk sönglög, óperuaríur og dúetta.

Ingibjörg Aldís Ólafsdóttir sópran, Egill Árni Pálsson tenór, Oddur Arnþór Jónsson baritón og Signý Sæmundsdóttir sópran syngja og kynna fjölbreytta efnisskrá tileinkaða þeim Kristni Hallssyni, Svölu Nielsen og Guðmundi Guðjónssyni. Söngvararnir stikla á stóru og leiða okkur í gegnum einstakan feril þessara merku söngvara með tónum, tali, og myndum. Glæsilegir tónleikar til skemmtunar og yndisauka, með vel þekktum íslenskum einsöngsperlum, aríum og óperusenum.

Þau Ingibjörg Aldís, Egill Árni og Oddur Arnþór eru söngvarar af yngri kynslóðinni og hafa verið áberandi í íslensku tónlistarlífi undanfarin ár. Þau hafa komið fram við fjölmörg tækifæri, bæði á tónleikum og óperusviðum hérlendis og erlendis. Þau taka nú höndum saman og heiðra þessa glæsilegu söngvara sem ruddu brautina. Signýu Sæmundsdóttur þarf vart að kynna, hún er ein af okkar fremstu söngkonum um árabil og hefur sungið fjöldann allan af tónleikum og óperuhlutverkum.  Hún verður hér í hlutverki kynnis, en stígur einnig á svið í nokkrum vel völdum einsöngslögum.

Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari spilar með af sinni alkunnu snilld. Ólafur Beinteinn Ólafsson harmónikkuleikari skrifar handritið að tónleikunum, en þess má geta að Ólafur Beinteinn er hugmyndasmiður að tónleikaröðinni Brautyðjendur, og faðir Ingibjargar Aldísar. Og hver veit nema að Ólafur stígi á stokk með nikkuna í einhverjum vel völdum lögum.

Upplagt tækifæri fyrir bæði unga og aldna að kynnast merkilegum ferlum þessara stórbrotnu listamanna. Tónleikar fullir af skemmtilegum fróðleik, og glæsilegum óperusmellum og íslenskum einsöngsperlum.

<English Below> 

A concert commemorating three of the pioneers of classical singers in Iceland. A wonderful program of operatic scenes and Icelandic music. Intricately woven together by the singers‘ fascinating life stories. All the performers, having had international careers, are prominent musicians in Iceland.