Af fingrum fram í 10 ár!

07. júní 2018
Af fingrum fram með Jón Ólafs og gestum 2018-2019

Forsala á tónleika næsta vetrar í tónleikaröð Jóns Ólafssonar, Af fingrum fram, í Salnum er í fullum gangi til 15. ágúst

20% afsláttur af miðaverði

Tíu gestir á tíu tónleikum í tilefni tíu ára afmælis Af fingrum fram í Salnum.

Af fingrum fram, heldur inn í tíunda veturinn í Salnum í haust. Nú þegar telja tónleikarnir 73 og hafa á annan tug þúsunda gesta sótt þá enda njóta þeir sívaxandi vinsælda. Gestir Jóns í gegnum árin telja 33 og næsta vetur bætast í þann hóp tónlistarmennirnir Emilíana Torrini, Ragnhildur Gísladóttir, Selma Björnsdóttir og Jón Jónsson. Auk þess verða endurteknir tónleikar með Stefáni Hilmarssyni, Magnúsi Eiríkssyni, Ladda, Valdimari Guðmundssyni, KK og Páli Óskari.

Það má með sanni segja að hér séu á ferðinni tónleikar sem eiga sér enga hliðstæðu en tónleikagestir kynnast tónlistarmönnunum í návígi, heyra sögur úr bransanum að ógleymdri allri tónlistinni sem er rauði þráður tónleikanna.

 Sem fyrr segir hefst forsalan á morgun og stendur til 15. ágúst. Þangað til fást stakir miðar á 4.150 kr. í stað 4.900 kr.