Nýir verkefnastjórar í Salinn

Anna Jóna Dungal og Sverrir Páll Sverrisson eru nýir verkefnastjórar í Salnum.


Axel Ingi Árnason, forstöðumaður Salarins í Kópavogi, tilkynnir með stolti að gengið hefur verið frá ráðningu á tveimur verkefnastjórum. Þau Anna Jóna Dungal og Sverrir Páll Sverrisson munu gegna mikilvægu hlutverki við að efla starfsemi Salarins á komandi misserum en bæði hafa þau víðtæka og fjölbreytta reynslu úr tónlistarlífinu.

Anna Jóna Dungal hefur verið ráðin sem verkefnastjóri viðburða og kynningarmála. Anna Jóna nam tónlistarviðskiptafræði við BIMM Institute í Berlín þaðan sem hún útskrifaðist 2019. Hún hefur starfað sem verkefnastjóri hjá ÚTÓN, Sony Music Iceland, Iceland Airwaves og Tónlistarborginni Reykjavík auk þess að reka eigið fyrirtæki, OK AGENCY, þar sem hún aðstoðar listamenn, stofnanir og fyrirtæki við verkefnastjórnun og markaðssetningu. 

Sverrir Páll hefur hafið störf sem verkefnastjóri viðburða og rekstrar. Sverrir lauk meistaranámi í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík 2021 og áður BS í tölvunarfræði. Hann hefur starfað sem verkefnastjóri hjá Listaháskóla Íslands og Norda, sem og aðstoðarmaður hjá Björk. Undanfarin ár hefur Sverrir einbeitt sér að fjölbreyttu viðburðahaldi og er einn stofnenda listahátíðarinnar State of the Art.

„Það er mikil gæfa að fá til okkar tvo sterka verkefnastjóra sem brenna fyrir því að efla tónlistarlíf og viðburðahald í Kópavogi“ segir Axel Ingi en auk forstöðumanns og verkefnastjóranna tveggja starfar við húsið tæknistjórinn Birgir Jón Birgisson. „Salurinn hefur um árabil verið heimili tónlistar í lista- og menningarlífi Kópavogs og mikilvægt athvarf fyrir klassíska tónlistarhefð á Íslandi. Þar sem Salurinn heldur áfram að kappkosta við að auka framboð sitt og gera menningu aðgengilega fyrir nærsamfélagið, markar viðbót Önnu Jónu og Sverris í teymið spennandi nýjan kafla.“

Annna Jóna Dungal og Sverrir Páll Sverrisson

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

Sjá meira