Saga Salarins

Salurinn er fyrsti sérhannaði tónleikasalur landsins. Hann var tekinn í notkun 2. janúar 1999.

Frá því að Salurinn var tekinn í notkun hafa verið haldnir að meðaltali tvennir tónleikar í viku, fjöldi ráðstefna af ýmsu tagi, námskeið, verðlaunaafhendingar, alþjóðlegt skákmót, píanókeppni, afmælisveislur, fermingar, brúðkaup og svo mætti áfram telja.

Salurinn rúmar 292 manns í sæti, 183 í sal og 109 á svölum. Lögun Salarins, hallandi gólf og þægileg sæti, skapa nálægð og góð tengsl á milli flytjenda og áheyrenda, en auk þess hefur Salurinn verið rómaður fyrir fallegt útlit og góðan aðbúnað. Forsalurinn rúmar 130 manns á viðburðum og hentar vel fyrir kynningar og móttökur af ýmsu tagi. Gott aðgengi er fyrir fatlaða inn í sal, en ganga þarf upp fáar tröppur upp á svalir.

Viðburðir

Tónleikahald í Salnum er afar fjölbreytt, einleikstónleikar, söngtónleikar, jazztónleikar, kammer- og kórtónleikar, svo eitthvað sé nefnt, þar sem fram koma innlendir og erlendir tónlistarmenn. Salurinn hefur hlotið mikið lof fyrir góðan hljómburð og vandaða tónleika. 
Þar að auki hentar salurinn vel fyrir uppistand og leiksýningar. 

Hljóðfæri

Tveir níu feta flyglar eru í Salnum, STEINWAY & SONS, model D, sem tekinn var í notkun 7. september 2001 og BÖSENDORFER, en tilkoma hans breytti miklu fyrir tónlistarlíf í Kópavogi, því segja má að margþætt tónleikahald bæjarins, allt frá árinu 1994, sé að verulegu leyti byggt upp í kringum það hljóðfæri. Það er ánægjulegt að geta boðið flytjendum að velja á milli þessara tveggja hljóðfæra eftir því sem henta þykir og fyrir áheyrendur að njóta afrakstursins. Að auki er í Salnum gott píanó í æfingarherbergi baksviðs.

Þegar Tónlistarskóli Kópavogs fagnaði 40 ára afmæli árið 2003 fékk skólinn, og Salurinn í Tónlistarhúsi Kópavogs, nýjan sembal að gjöf frá bæjarfélaginu. Semballinn var vígður af Jory Vinikour semballeikara á fimmtugasta afmælisári bæjarins, 17. desember 2005. Hljóðfærið er af fransk-flæmskri gerð, smíðað á vinnustofu Marc Ducornet í París, hefur tvö hljómborð (63 nótur) og spannar rúmar fimm áttundir, en slíkt hljóðfæri gefur möguleika á flutningi allra þeirra verka sem samin hafa verið fyrir sembal. Þessi gerð hefur því mikið notagildi og hefur verið valið af fjölmörgum tónleikasölum og hljómsveitum víða um heim, svo sem fílharmóníusveitum í Leningrad og Kiev, Japan, Finnlandi, Ítalíu og Bandaríkjunum, en einnig af fjölmörgum semballeikurum, tónlistarháskólum og öðrum stofnunum.

Um bygginguna

Arkitektar hússins eru þeir Jakob Líndal og Kristján Ásgeirsson. Við hönnun Salarins var lögð áhersla á að tryggja sem bestan hljómburð og leitað ráðgjafar færustu sérfræðinga á því sviði. Hljóð- og hljómhönnun var í höndum verkfræðinganna Stefáns Einarssonar og Steindórs Guðmundssonar.

Byggingin sjálf er um margt sérstæð. Áhersla hefur verið lögð á íslenskan efnivið. Á innveggjum Salarins er greni úr Skorradal, malað grjót úr grunni hússins er í gólfum og glerveggurinn á vesturhlið er að hluta til klæddur með rekavið frá Langanesi. Þessi „íslenski nytjaviður“ er ómeðhöndlaður og mun verða silfurgrár í tímans rás. Viðurinn er gegnvarinn eftir velting í söltum sjónum og þarf því ekki viðhald. Þegar inn í Salinn er komið eru veggir klæddir með öðrum íslenskum nytjavið, þ.e. greni úr Skorradal. Þetta er fyrsta uppskeran af greni sem nytjavið og vegna smæðar bolanna er viðurinn unninn í rimla. Viðurinn er hafður stórskorinn, grófur og veðurbarinn úti, en smágerður, slípaður og lakkaður inni.

Hljómburður

Salurinn er sérhannaður til tónlistarflutnings og komu færustu sérfræðingar Íslendinga á sviði hljómburðar að hönnun hans. Hljómfræðilega var stefnt að ómtíma 1,2 -1,8 sekúndum. Það er í samræmi við þá stærð flytjendahópa sem sviðið ber og þá stærð flytjendahópa sem rúmmál Salarins nýtist hvað best fyrir. Sú tónlist sem berst frá stærstu kórum og hljómsveitum þarf mun meira rúmmál.

Lofthæðin er um 14 metrar og eru flekar í lofti og stillanleg hljóðtjöld við veggi. Flekarnir í loftinu endurvarpa háu tónunum, en djúpu tónarnir fara upp í hvelfinguna ofan við flekana og bergmála þar. Hljóðtjöldin draga aftur á móti úr ómtímanum. Þannig er Salurinn sjálfur hljóðfæri og tónlistarmenn almennt á einu máli um að hljómburðurinn sé einstaklega góður. Salurinn er tvískiptur, annars vegar rými sem tekur um 200 manns í sæti og hins vegar svalir með sætum fyrir um 100 áheyrendur.

Helstu áhrifavaldar á hljómburð í Salnum eru þessir:

  • Fljótandi skermar í lofti stilla dreifingu hljóðsins eftir Salnum endilöngum og afmarka 1/3 af rúmmáli hans sem hljómkassa.
  • Formbeygðir s-laga hljóðskermar á hliðarveggjum stilla dreifingu og gæði hljómsins þvert á Salinn.
    Stillanlegir bak- og hliðarskermar á sviði jafna dreifingu hljóðsins frá sviði út í sal.
  • 7500 grenistafir á veggjum Salarins mýkja tóninn og koma í veg fyrir bergmál.
  • Sviðstjöld og stillanleg hljóðtjöld á hliðarveggjum gera ómtímann breytilegan frá 1.1 sek. – 1.7 sek. og eru notuð eftir þeirri tegund tónlistar sem flutt er hverju sinni.
  • Bólstrun og bygging stóla er gerð með tilliti til þess að tóngæði séu söm í tómum og fullsetnum Salnum.

Af öðrum búnaði Salarins má nefna 250 loftræsti inntök í stólfótum bekkja, sem tryggja jafna og hljóðlausa dreifingu á fersku lofti inn í salinn. Góður sviðslýsingarbúnaður er fyrir hendi og góð aðstaða og tengibúnaður fyrir útvarp og sjónvarp. Stórt sýningartjald (5 x 7 m) er í Salnum auk annars útbúnaðar til fundahalda. Fullkomið upptökuherbergi er tengt Tónveri Tónlistarskóla Kópavogs með glugga inn í Salinn.