Runninn upp á fjarlægum fljótsbökkum
og hefur tyllt silfurbleikum hóf
lymskulétt
í fráleitustu pláss
og þanið fót sinn
fagurrenndan og rauðan
úthafa á milli
(eðli sínu fær hann aldrei leynt
til lengdar
þó soðinn sé
um sunnudagsbil
í dísætan graut
af albestu konu
og borinn fyrir biskup biskupsson
í margvígðum kristal
með sykri og rjóma
er hann hinn sami)
eitursperrtur alla tíð
og hvergi sem í eyðibyggðunum
þar sem hann trónir yfir tóftunum
þurrum og óhuggandi brunnunum
brostnum vonum
draumi og þrám
hinna horfnu