Ljóðstafur Jóns úr Vör 2011

Steinunn Helgadóttir

1. sæti

Kaf

Sólin lýsti bara upp
yfirborðið
þegar Kursk
hvarf í djúpið.
Hjátrúarfullar eiginkonur
sátu heima.
Þorðu ekki að kveðja.
Sjónpípan er hettuklædd
slanga
og gleraugað skoðar hafflötinn
það er íshröngl úti.
Inni er móða
sólbekkir
sex metra sundlaug
sána tafl fiskabúr
kvikmyndir pottaplöntur köttur ruggustólar.
Suðrænar strendur og furuskógar í myndvarpanum.
Eldkúla og að lokum tíminn.