Sumarjazz í Salnum hefst með hvelli fimmtudaginn 13. júní þegar Bogomil Font og hljómsveit stíga á stokk en tónleikar munu svo fara fram alla fimmtudaga fram til 18. júlí. Boðið verður upp á stuð og sveiflu, angurværð og trega, óvissuferðir og tilraunamennsku, glænýja tónlist og sígilda jazzslagara í bland. Það er lista- og menningarráð Kópavogsbæjar sem styrkir Sumarjazz í Salnum en ókeypis er á tónleikana sem fram fara klukkan 17 – 18 á fimmtudögum.
Bogomil Font stígur á svið 13. júní en viku síðar, fimmtudaginn 20. júní mun Ingibjörg Turchi flytja magnaða tónlist sína ásamt hljómsveit. 27. júní leggur MOVE, kvartett Óskars Guðjónssonar, upp í spennandi óvissuferð og 4. júlí galdrar Kristjana Stefánsdóttir fram seiðandi tóna. 11. júlí leiðir gítarleikarinn Edgars Rugajs saman tónlistarfólk úr ólíkum áttum á afar áhugaverðum tónleikum og tónleikaröðinni lýkur svo með hinni geysivinsælu Los Bomboneros en á meðal hljómsveitarmeðlima hennar er nýkrýndur bæjarlistamaður Kópavogsbæjar, Kristofer Rodriguez Svönuson.
Sumarjazz í Salnum sumarið 2024
13. júní
Bogomil Font og hljómsveit
20. júní
Ingibjörg Turchi og hljómsveit
27. júní
MOVE, kvartett Óskars Guðjónssonar
4. júlí
Tríó Kristjönu Stefánsdóttur
11. júlí
Kvartett Edgars Rugajs
18. júlí
Los Bomboneros
Sumarjazz í Salnum er styrktur af lista- og menningarráði Kópavogsbæjar.