Opið fyrir umsóknir í Púlsinn


Molinn, miðstöð unga fólksins og Salurinn kynna Púlsinn, nýja tónleikaröð sem verður haldin í Salnum, Kópavogi í vor.

Markmið tónleikaraðarinnar er að gefa ungu tónlistarfólki tækifæri að koma fram á tónleikum í einum fallegasta tónleikasal landsins en jafnframt gefa þeim verkfæri og tól til þess að vinna í tónlistarferli sínum.
Þau tónlistaratriði sem verða valin fá einnig að taka þátt í námskeiði þar sem tónlistarkonan Hildur Kristín Stefánsdóttir og tónlistarráðgjafinn Anna Jóna Dungal kenna hagnýta hluti sem snúa að tónlistarbransanum, markaðssetningu og útgáfumálum.

Molinn er miðstöð fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára þar sem hægt að mæta og nota aðstöðuna á ýmsan hátt, til dæmis með að bóka stúdíó og vinna í tónlist, æfa sig á sviði,halda viðburði en einnig til að slaka á, læra eða hafa gaman. Molinn er einnig skipuleggjandi Skapandi sumarstarfa í Kópavogi sem fagna 20 ára starfsafmæli í sumar.

Umsóknarfrestur er til og með 16. febrúar 2025.

Upplýsingar um Púlsinn

Tónleikarnir fara fram miðvikudagkvöldin 26.mars, 9.apríl og 21.maí og námskeiðið miðvikudaginn 5.mars. Á hverjum tónleikum koma tvö atriði fram.

Hvert atriði fær greiddar 50 þúsund krónur fyrir að koma fram. Einnig deila þau með sér miðasöluhagnaði kvöldsins.

Það eru engin eiginleg aldurstakmörk í hvora átt en verið er að leita að tónlistarfólki sem hefur allavega einhverja grunnreynslu af því að koma fram en er kannski ekki búið að vera starfandi í mörg ár, sama hver tónlistarstefnan er. Engin takmörk eru fyrir því hversu mörg geta komið fram í hverju atriði fyrir sig.

Þau atriði sem verða valin fá að koma einu sinni fram á tónleikaröðinni. Atriðin þurfa að geta fyllt minnst 25 mínútna framkomu en ekki spila lengur en 40 mínútur.

Salurinn skaffar tónleikasalinn, hljóð- og ljósakerfi, tækni- og hljóðmann, umsjón með miðasölu, trommuset, hljóðnema og snúrur. Atriðin fá tækifæri til að æfa sig í Salnum með aðstoð hljóðmanns daginn fyrir tónleika og vera með hljóðprufu sama dag og tónleikarnir þeirra fara fram.

Salurinn og Molinn kynna viðburðina á vefsíðum, samfélagsmiðlum og í fréttabréfum sínum. Mikilvægt er að atriðin sem valin verða taki virkan þátt í markaðssetningu tónleika sinna.

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

Sjá meira