Styrkir samfélag söngunnenda

Tónleikaröðin Syngjandi í Salnum hóf göngu sína í Salnum í Kópavogi í febrúar 2022. Sjö tónleikar verða í tónleikaröðinni á þessu tónleikaári en listrænn stjórnandi hennar er Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir söngkona.

„Ég byrjaði sem söngkennari við Tónlistarskóla Kópavogs haustið 2020 eftir tuttugu ára dvöl erlendis. Í skólanum eru lúxusaðstæður fyrir söngnemendur ekki síst vegna þess að samsöngstímarnir sem ég kenni einu sinni í viku fara fram í Salnum sjálfum,“ segir Guðrún Jóhanna og bætir við: „Hljómur Salarins er einstakur, enda er hann sá tónleikasalur sem mörgum þykir henta einsöng best á Íslandi, bæði vegna hljómsins en líka vegna þeirrar nálægðar við áhorfendur sem getur hjálpað til við að styrkja tengsl söngvara við hlustendur á söngtónleikum. Áhorfendur heyra ekki einungis í röddinni heldur eru þeir einnig nógu nálægt til að sjá svipbrigði söngvarans og skynja túlkun hans þannig enn dýpra. Mig langaði til að leggja mitt af mörkum til að byggja upp ennþá blómlegra sönglíf í þessum frábæra söngsal og enn sterkara samfélag söngunnenda á landinu.“


Efnisskrá hverra tónleika er valin í samstarfi á milli Guðrúnar Jóhönnu og listamannanna. „Ég vil að söngvararnir fái notið sín sem best í tónlist sem þeir brenna fyrir. Sterkustu tónleikarnir eru þar sem listamaðurinn hefur eitthvað að segja, þar sem innblásturinn er til staðar. En ég gæti þess líka að reyna að hafa jafnvægi í efnisskrá hverra tónleika og í allri röðinni. Ég fylgist vel með söngvurum á Íslandi og íslenskum söngvurum erlendis þar sem ég er söngkona sjálf, söngáhugamanneskja og listrænn stjórnandi Sönghátíðar í Hafnarborg ásamt Francisco Javier Jáuregui. Ég vil að áhorfendur geti gengið að því vísu að í Syngjandi í Salnum munu þeir hlusta á fyrsta flokks söng og áhugaverða efnisskrá.“

Íslendingar einkar söngelsk þjóð

Þegar hafa verið haldnir nokkrir tónleikar í röðinni og hún segir viðtökurnar hafa verið mjög góðar. „Áhorfendur gleðjast yfir að geta gengið að svona góðum og áhugaverðum söngtónleikum og tónlistarmenn eru ánægðir með að fá nýja röð inn í tónleikaflóruna, sem þannig er atvinnuskapandi fyrir tónlistarmenn á Íslandi.“
Hún segir Íslendinga alveg sérstaklega söngelska þjóð. „Okkar tónlistararfur er að stórum hluta söngtónlist, enda var aðgengi að hljóðfærum af mjög skornum skammti í gegnum aldirnar. En allir fæðast með hljóðfærið röddina og það kostar ekkert að nota hana. Söngurinn er einnig nátengdur ljóðlistinni og bókmenntum almennt, sem eru svo stór hluti af okkar þjóðarmenningu og sögu. Almennur söngur er mjög algengur á Íslandi, margir kórar eru starfandi og fjöldinn allur af fólki er að læra söng. Íslendingar eiga líka marga söngvara sem starfa við list sína erlendis, enda er engin föst staða á Íslandi fyrir söngvara. Þess vegna er mikilvægt að það séu til mörg tónleikatækifæri fyrir þá.”

Jákvæð áhrif á samfélagið

Guðrún Jóhanna segir markmiðið með tónleikaröðinni að koma klassískri sönglist og söngvurum á framfæri. „Mig langar líka að hafa jákvæð áhrif á samfélagið í gegnum flutning vandaðra listamanna á framúrskarandi tónlist og skapa aðstæður fyrir tónlistarunnendur til að þess að koma saman, njóta fallegs söngs og blanda geði fyrir og eftir tónleika og í hléi.“ Þá segist hún einnig vilja gefa söngvurum tækifæri til þess að koma fram á söngtónleikum án þess að þurfa að skipuleggja þá sjálfir eða taka fjárhagslega áhættu með því að leigja sal. „Mig langaði líka til að auka við menningarframboð í Kópavogi og ýta þannig undir jákvæða ímynd bæjarins og að stækka áheyrendahóp klassískrar söngtónlistar. Ég þakka Aino Freyju Jarvela, Salnum og Kópavogi að hafa tekið svona vel í þessa hugmynd mína og gert henni kleift að verða að veruleika.“

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

Sjá meira