12. jan 13:30

Hamskipti

Einleiksgítarinn er í aðalhlutverki á þessum spennandi tónleikum þar sem hljómar glæný tónlist í bland við sígilda í frábærum flutningi Svans Vilbergssonar. Á undan tónleikunum, kl. 13, verður tónleikaspjall þar sem veitt verður innsýn í efnisskrána.

EFNISSKRÁ

* Daniele Basini
Staðir (2024)
I – Vetur undir Hraundraga
II – Vor á Dalfjalli
III – Sumar í Stórurð
IV – Haust í Vesturdal

* Jón Leifs (1899 – 1968)
– Fughetta (Úts. S. Vilbergsson)

* Jón Nordal (1926 – 2024)
Hvert örstutt spor (Úts. S. Vilbergsson)

* Þorkell Sigurbjörnsson (1938 – 2013)
Heyr, himna smiður (Úts. O. Sigmundsson)

* Bára Sigurjónsdóttir (1979)
Reykjavík, ó Reykjavík (2024)

* Egill Gunnarsson (1966)
Nýtt verk , frumflutningur (2025)

-Hlé-

* Claude Debussy (1862-1918)
Soireé dans Grenade

* Manuel de Falla (1876-1946)
Homenaje: Pour Le Tombeau de Claude Debussy
(Til heiðurs Claude Debussy að honum látnum)

* Isaac Albeniz (1860-1909)
Asturias
Granada
Rumores de la caleta

Um efnisskrána:

Ítalska tónskáldið Daniele Basini er búsett á Akureyri og hefur samið fjölda verka, bæði kammer- og einleiksverk. Verkið sem hér um ræðir var samið fyrir Svan árið 2024 og var frumflutt á Akureyri í nóvember 2024.

Því næst hljóma þrjár nýjar gítarútsetningar á undurfögrum perlum eftir þá Jón Leifs, Jón Nordal og Þorkel Sigurbjörnsson.

Reykjavík, ó Reykjavík eftir Báru Sigurjónsdóttur var frumflutt af Svani Vilbergssyni í Kaupmannahöfn í apríl síðastliðnum og hljómar í fyrsta sinn á Íslandi á þessum tónleikum.

Síðasta verk fyrir hlé verður frumflutningur á glænýju verki eftir Egil Gunnarsson sem þekkir gítarinn út og inn.

Seinni hluti tónleikanna hefst á verkinu Soireé dans Grenade eftir Claude Debussy. Verkið er eitt þriggja verka í flokknum Estampes og er af mörgum talin fyrsta alvöru tilraun Debussy með nýjan stíl sem í dag kallast impressíonismi. Greina má laglínur sem minna á arabíska tónlist, á meðan hrynurinn byggir á dansinum habanera sem varð til á Kúbu og naut mikilla vinsælda á Spáni á tíma Debussy.

Við andlát Claude Debussy var tónskáldið Manuel de Falla beðið um að skrifa minningargrein um hann í blaðið Revue Musicale. Í stað þess ákvað Falla að skrifa gítarverk til minningar um Debussy sem hann kallaði einfaldlega Homenaje. Seinna átti hann eftir að útsetja það fyrir einleikspíanó og síðar fyrir sinfóníuhljómsveit. Í verkinu má greinilega heyra tilvitnun í verk Debussy Soireé dans Grenade.

Verkin Asturias og Granada eru úr Suite Espaniola eftir Isaac Albeniz. Verk þessarar svítu teikna upp myndir af borgum og öðrum svæðum á Spáni þar sem hrynur og hljómfall skapa þá stemningu sem tilheyrir hverjum stað. Það er áhugavert að heyra hvernig verkið Granada hljómar í samanburði við verk Debussy sem sækir innblástur í sömu borg.

Rumores de la caleta ber undirtitilinn Malaguena og er þar átt við dansinn fræga ættaðan frá Malaga. Ryþmískur og kraftmikill dans með greinilegum áhrifum úr flamenco-tónlistarhefðinni.

Svanur Vilbergsson hefur haldið einleikstónleika víða um heim, m.a. í Bandaríkjunum, Hollandi, Spáni, Englandi, Belgíu og Írlandi. Á meðal verkefna hafa verið tónleikar á Inishowen International Guitar Festival á Írlandi, Grand Nordic Guitar Festival í Kaupmannahöfn, Classical Guitar Retreat á Skotlandi og Reykjavík Classics tónleikaröðinni í Eldborg Hörpu þar sem hann varð fyrsti klassíski gítarleikarinn til að spila einleik í þeim sal. Hann hefur komið fram í sjónvarpi í Bandaríkjunum og á Spáni og var valinn fyrir Íslands hönd til þátttöku í norsk-íslenska menningarverkefninu Golfstraumurinn. Fjölmörg tónskáld hafa tileinkað honum verk og í febrúar 2014 frumflutti hann í Hörpu, ásamt Kammersveit Reykjavíkur, gítarkonsertinn Halcyon Days sem saminn var af tónskáldinu Oliver Kentish .

Árið 2011 kom út fyrsti einleiksdiskur Svans sem kallast Four Works og hefur honum verið einkar vel tekið. Svanur er meðlimur í Íslenska gítartríóinu , sem tilnefnt var til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2022 og Stirni Ensemble sem hefur sérhæft sig í flutningi á íslenskri samtímatónlist. Hann kennir meðal annars klassískan gítarleik við Menntaskólann í tónlist og Listaháskóla Íslands.

Svanur hóf gítarnám sitt hjá Torvald Gjerde, Garðari Harðarssyni og Charles Ross við Tónlistarskóla Stöðvarfjarðar og Tónlistarskólann á Egilsstöðum. Sautján ára fór hann til Englands til náms við King Edwards VI menntaskólann í Totnes þar sem gítarkennari hans var Colin Spencer og útskrifaðist Svanur þaðan af tónlistar- og líffræðibraut árið 2001. Þaðan hélt hann til Spánar og sótti þar einkatíma hjá Arnaldi Arnarssyni við Escola Luther.

Árið 2002 hóf Svanur nám hjá ítalska gítarleikaranum Carlo Marchione við Tónlistarháskólann í Maastricht og lauk þaðan B.Mus.-gráðu vorið 2006. Sama ár hóf hann mastersnám hjá Enno Voorhorst við Konunglega tónlistarháskólann í Haag sem hann lauk vorið 2008. Þá hefur hann einnig sótt tíma hjá Sonju Prunnbauer í Freiburg.

Deildu þessum viðburði

Sjá meira

ÞÚ GÆTIR HAFT ÁHUGA Á

Sjá meira