Herra Hnetusmjör er bæjarlistamaður Kópavogs árið 2020 og vel að heiðrinum kominn enda hefur hann aldrei farið leynt með hversu stoltur hann er að vera Kópavogsbúi allt frá því að hann hóf tónlistarferil sinn árið 2014. Í textum hans er Kópavogur alltaf í forgrunni og hefur verið frá upphafi.
Herra Hnetusmjör er yngstur fimm systkina og eru sextán ár á milli hans og elsta bróður hans. Foreldrar hans eru bæði ættuð úr Kópavogi og þar býr hann sjálfur ásamt kærustu sinni og syni þeirra sem fæddist í febrúar síðastliðnum.
Rappferillinn hófst í Vatnsendaskóla þar sem tveir félagar byrjuðu hálfvegis í gríni að rappa undir nöfnunum Herra Hnetusmjör og Sir Sulta sem saman mynduðu tvíeykið Nautalundir. Nafnið vakti athygli og þegar hann seinna ákvað að hefja rappferil fyrir alvöru hélt hann nafninu og einnig þeirri staðreynd að hann kemur úr Kópavogi. Flest lög hans hafa einhverja vísun í Kópavog og hefur hann unnið hörðum höndum að því að breiða út hróður bæjarins. Hann stofnaði árið 2014 KópBois Entertainment sem er að hans sögn „útgáfufyrirtæki, fjöllistahópur, vinahópur og gengi“ og vísunin í Kópavog í nafni fyrirtækisins fer ekkert á milli mála. Svo rekur hann einnig skemmtistaðinn 203 við Ingólfstorg en nafnið vísar í póstnúmerið í Kóra- og Hvarfahverfum Kópavogs. Þannig hefur hann stuðlað að innrás og yfirtöku Kópavogs í miðjunni á miðbæ Reykjavíkur og geri aðrir betur.
Hann segir það góða tilfinningu að vera bæjarlistamaður Kópavogs. „Þetta er auðvitað mikill heiður og ég er gríðarlega þakklátur.“ Hann telur samt að titillinn muni ekki breyta neinu afgerandi í listsköpun sinni. „Bæjarlistamenn hafa í gegnum tíðina gert verkefni tengt bænum á einn eða annan hátt eftir að þeir fá þennan titil. Ég hef hins vegar frá fyrstu útgáfu troðið Kópavogi á alla vinkla í minni list þannig ég mun halda því áfram og gera tónlistarmyndband og lag sem samsvarar því, með Kópavog í forgrunni.“ Hann segir að rappið sé í grunninn núvitund þar sem rapparinn deilir lífi sínu og upplifunum með hlustandanum. „Þú rappar um það sem þú gerir og umhverfið þitt. Ég eyddi mótunarárunum í Kópavogi og bý þar núna með fjölskyldunni minni. Planið er ekki að flytja og þá rappa ég um Kópavog.“
Herra Hnetusmjör hefur verið hreinskilinn gegnum tíðina um líf sitt, bæði í rappinu og utan þess og á í dag margra ára edrúmennsku að baki þrátt fyrir ungan aldur. Aðspurður hvort hann líti á sig sem fyrirmynd þá neitar hann því. „Ég er einungis fyrirmynd fyrir son minn. Álit annara á mér kemur mér ekki við.“ Sonur hans er enn á fyrsta ári og Kópavogsbúi frá fæðingu og faðir hans hlakkar til að sjá hann vaxa úr grasi í heimabænum. „Ég er ánægður að fá að ala son minn upp hérna, ég skemmti mér konunglega sem krakki hér og myndi ekki vilja breyta neinu.“
Hann viðurkennir að hann hafi ekki heimsótt Menningarhúsin síðan í grunnskóla nema til að koma fram en hann spilaði meðal annars á rapphátíð í Salnum á síðasta ári. En sitthvað í dagskrá vetrarins heillar. „Ég ætla til dæmis að fara á tónleika Bó Hall og Jóns Ólafssonar í Salnum í september.“
Föðurhlutverkið á hug Herra Hnetusmjörs mestan þessa dagana en hann er þó að vanda með ýmis járn í eldinum og er meðal annars höfundur Breiðablikslagsins sem kom út í upphafi sumars. Svo stefnir hann á tónleika í haust sem verða frumraun hans að ýmsu leyti. „Ég ætla að halda sitjandi tónleika með hljómsveit í Háskólabíó í september,“ segir hann og bætir við: „Ég er mjög spenntur enda hef ég aldrei haldið tónleika með bandi né af þessari stærðargráðu. Það verða einnig fjölskyldutónleikar fyrr um daginn þannig það eru allir aldurshópar velkomnir.“ Þá er ný plata í farvatninu svo það er í ýmsu að snúast hjá bæjarlistamanni Kópavogs 2020.
Cookie | Duration | Description |
---|---|---|
cookielawinfo-checkbox-analytics | 11 months | This cookie is set by GDPR Cookie Consent plugin. The cookie is used to store the user consent for the cookies in the category "Analytics". |
cookielawinfo-checkbox-functional | 11 months | The cookie is set by GDPR cookie consent to record the user consent for the cookies in the category "Functional". |
cookielawinfo-checkbox-necessary | 11 months | This cookie is set by GDPR Cookie Consent plugin. The cookies is used to store the user consent for the cookies in the category "Necessary". |
cookielawinfo-checkbox-others | 11 months | This cookie is set by GDPR Cookie Consent plugin. The cookie is used to store the user consent for the cookies in the category "Other. |
cookielawinfo-checkbox-performance | 11 months | This cookie is set by GDPR Cookie Consent plugin. The cookie is used to store the user consent for the cookies in the category "Performance". |
viewed_cookie_policy | 11 months | The cookie is set by the GDPR Cookie Consent plugin and is used to store whether or not user has consented to the use of cookies. It does not store any personal data. |