27. sep 12:15

Ástin, bjartsýnin og andskotans blaðrið í fólkinu

Ný lög við ljóð Jóns úr Vör

Marína Ósk Þórólfsdóttir jazzsöngkona og Sunna Gunnlaugsdóttir píanóleikari flytja ný sönglög Sunnu við ljóð Jóns úr Vör. Hugljúfir og hugvíkkandi hádegistónleikar með tveimur úrvals tónlistarkonum.

Tónleikarnir eru styrktir af lista- og menningarráði Kópavogsbæjar og Tónlistarsjóði RANNÍS.

Aðgangur er ókeypis og öll hjartanlega velkomin.

Sunna Gunnlaugsdóttir á að baki glæsilegan feril sem píanóleikari og tónskáld. Hún hefur sent frá sér níu breiðskífur sem hafa hlotið frábærar viðtökur í virtum tónlistartímaritum og ratað inn á vinsældalista jazzútvarpsstöðva í Bandaríkjunum og Kanada. Fyrsta plata hennar, Mindful, var valin meðal 10 bestu diska ársins af blaðinu Virginian Pilot árið 2000 og nýjasta platan Becoming sem kom út fyrr á þessu ári hefur vakið mikila eftirtekt.

Sunna hefur hlotið fjölda tilnefninga til Íslensku tónlistarverðlaunanna og var valin flytjandi ársins árið 2015 og 2019. Tríó hennar, Þorgríms Jónssonar og Scott McLemore hefur notið mikillar hylli og var valið Tónlistarhópur Reykjavíkur árið 2013. Sunna var Bæjarlistamaður Kópavogsbæjar árið 2021 en þá lágu leiðir hennar og Jóns úr Vör fyrst saman.

Marína Ósk er jazzsöngkona og lagahöfundur. Hún hefur komið fram á fjölda tónleika og tónlistarhátíða hérlendis og erlendis, má þar nefna Jazzhátíð Osló, Jazzhátíð Reykjavíkur, Freyjujazz, Hólahátíð, tónleika á Norðurlöndunum, í Hollandi, Eistlandi og Grikklandi. Lag hennar The Moon and the Sky var valið lag ársins í flokk jazztónlistar á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2023 auk þess sem Marína hefur hlotið fleiri tilnefningar til verðlaunanna á undanförnum árum. Marína Ósk lauk meistaragráðu í djasssöng frá Konunglega tónlistarháskólanum í Stokkhólmi vorið 2021 og sneri meistararitgerð hennar að tónlistarsköpun trompetleikarans og söngvarans Chet Baker.

Jón úr Vör fæddist á Vatneyri við Patreksfjörð 21. janúar 1917 en starfaði lengst af í Kópavogi þar sem hann var hvatamaður að stofnun bókasafnsins og síðar fyrsti bæjarbókavörður bæjarfélagsins.

Jón starfaði að menningarmálum með ýmsum hætti, var til dæmis bæði bóksali og ritstjóri, en fyrst og fremst var hann brautryðjandi í íslenskri ljóðagerð. Fjölmargar ljóðabækur hans lifa með þjóðinni og ber þá helst að nefna óð hans til æskustöðvanna, ljóðabálkinn Þorpið. Jón úr Vör lést 4. mars árið 2000.

Árlega efnir Kópavogsbær til samkeppni um Ljóðstaf Jóns úr Vör þar sem öllum er frjálst að senda inn frumsamin ljóð á íslensku, og undir dulnefni. Verðlaunin eru veitt við hátíðlega athöfn á fæðingardegi Jóns úr Vör þann 21. janúar ár hvert.

.

Deildu þessum viðburði

ÞÚ GÆTIR HAFT ÁHUGA Á

Sjá meira