29. mar 20:00

Draumar sem sökkva í sálina

Ný tónleikaröð sem hóf göngu sína í Salnum í Kópavogi í febrúar 2022. 20% forsöluafsláttur til 19. september 2022 Almennt miðaverð 4.900 kr. miðaverð í forsölu 3.920 kr.
4900 kr

Hallveig Rúnarsdóttir er svo sannarlega búin að syngja sig inn í sál þjóðarinnar undanfarin ár  með sinni fögru sópranrödd og innlifun á sviði. Hallveig og Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari hafa glatt marga áhorfendur hérlendis og erlendis með tónleikum sínum með faglegum flutningi og vönduðum efnisskrám. Á þessum tónleikum takast þær á við hin frægu Wesendonck ljóð Wagners. Á efnisskránni eru einnig kabarettlög eftir bandaríska tónskáldið William Bolcom og lög úr Brettl-Lieder (Kabarett söngvar) eftir austurríska tónskáldið Arnold Schönberg, sem geisla öll af kímni í frásögn og einfaldleika í tónlistinni.

Hallveig Rúnarsdóttir hóf söngnám hjá Sigurði Demetz árið 1991. Hún útskrifaðist með láði frá Guildhall school of Music and Drama 2001. Hallveig hefur sungið nokkur óperuhlutverk, flest hjá Íslensku Óperunni en einnig víðar. Meðal hlutverka hennar eru Donna Anna í Don Giovanni eftir Mozart, Michaëla í Carmen eftir Bizet, Fiordiligi í Così fan Tutte eftir Mozart, Gianetta í Ástardrykknum eftir Donizetti, Rödd af himnum í óperunni Don Carlo eftir Verdi og Echo í Ariadne auf Naxos eftir Richard Strauss. Árið 2016 frumflutti hún hlutverk stúlku í óperu Kristians Blak, Ljós í ljóði í Færeyjum, árið 2018 hlutverk Gilitruttar í samnefndri óperu eftir Hildigunni Rúnarsdóttur og árið 2020 óperuna Traversing the Void eftir sama höfund. Sú ópera verður einnig flutt í Ástralíu á komandi ári. Hún hefur komið fram sem einsöngvari víða um heim, hún hefur sungið sópranhlutverkið í mörgum helstu stórverkum tónbókmenntanna og hefur sungið margoft með Sinfóníuhljómsveit Íslands auk fjölda annarra hljómsveita bæði hér á landi og erlendis. Hallveig hefur sérstaklega verið virk í flutningi nýrrar tónlistar og hefur frumflutt mörg ný íslensk verk. Hallveig hefur og haldið fjölda einsöngstónleika á Íslandi og erlendis undanfarin ár. Hallveig hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem söngkona ársins í sígildri- og samtímatónlist árin 2013 og 2018 og tilnefningu til sömu verðlauna 2014, 2016, 2020 og 2021. Hún var tilnefnd til Grímuverðlauna sem söngvari ársins árið 2014 og árið 2017. Hallveig er stofnandi og listrænn stjórnandi sönghópsins Cantoque Ensemble.

Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari stundaði nám hjá Erlu Stefánsdóttur og síðar hjá Jónasi Ingimundarsyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Í Þýskalandi stundaði hún nám við tónlistarháskólann í Freiburg og síðar við tónlistarháskólann í Stuttgart. Í Freiburg lauk hún mastersgráðu í píanóleik og píanókennaranámi og í Stuttgart mastersgráðu við Ljóðasöngdeild skólans. Hrönn hefur komið fram á tónleikum víða sem einleikari og meðleikari. Hún hefur verið virk í uppeldisstarfi ungra söngvara, verið tónlistarstjóri uppfærslna síðustu ára hjá óperudeild Söngskólans í Reykjavík þar sem fluttar hafa verið perlur óperubókmenntanna. Hrönn er kennari við Söngskólann í Reykjavík og við MÍT, Menntaskóli í tónlist og Söngskóla Sigurðar Demetz.

Syngjandi í Salnum er ný tónleikaröð sem hóf göngu sína í Salnum í Kópavogi í febrúar 2022. Listrænn stjórnandi hennar er Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir söngkona. Í röðinni er boðið upp á söngtónleika með nokkrum af fremstu klassísku söngvurum Íslands. Hverjir tónleikar verða nokkurs konar ,,portrett“ tónleikar, sem gefa mynd af listamanninum. Á blandaðri efnisskránni er undirstöðuefnið oft íslenskur og erlendur ljóðasöngur ásamt óperuaríum. Tónleikaröðin býður upp á sjö tónleika yfir tónleikaárið 2022-2023.

FRAM KOMA

Hallveig Rúnarsdóttir

sópran

Hrönn Þráinsdóttir

píanó

Deildu þessum viðburði

ÞÚ GÆTIR HAFT ÁHUGA Á

Sjá meira