21. apr 13:30

Ljóðrænn og kraftmikill er saxófónninn

3.500 kr.

Duo Ultima er skipað þeim Guido Bäumer á saxófón og Aladár Rácz á píanó. Á þessum tónleikum flytja félagarnir einkar kraftmikla og spennandi efnisskrá þar sem hljóma þrjú splunkuný tónverk eftir Snorra Sigfús Birgisson, Charles Ross og Wes Stephens en verkin voru öll samin sérstaklega fyrir Duo Ultima.

Ásamt nýju verkunum flytja þeir félagar sónötur eftir rússneska tónskáldið Edison Denisov og pólsk-bandaríska tónskáldið Robert Muczinski auk ljóðræns Intermezzo eftir Atla Heimi Sveinsson.


Um flytjendur

Guido Bäumer er fæddur í Þýskalandi en hefur verið búsettur á Íslandi frá árinu 2005. Að loknu tónlistarnámi í Bremen í Þýskalandi stundaði hann framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Basel í Sviss, þaðan sem hann lauk einleikaraprófi með hæstu einkunn, og við Bowling Green State University í Ohio í Bandaríkjunum. Á Íslandi hefur Guido m.a. leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Caput-hópnum, Kammersveit Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Íslenska saxófónkvartettnum og haldið spunatónleika.

Aladár Rácz píanó er fæddur í Rúmeníu en hefur verið búsettur á Íslandi frá árinu 1999. Að loknu tónlistarnámi við Georges Enescu tónlistarskólann í Búkarest stundaði Rácz framhaldsnám við Tónlistarháskólana í Búkarest og Búdapest. Hann hefur leikið á tónleikum víðs vegar um heiminn, leikið inn á geisladiska og unnið til verðlauna fyrir píanóleik í alþjóðakeppnum. Aladár hefur haldið nokkra einleikstónleika í Salnum í Kópavogi og komið í tvígang fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.

Duo Ultima hefur starfað í rúm 20 ár og hefur á þeim tíma komið fram á fjölda tónleika og tekið upp þrjá geisladiska í samvinnu við upptökufyrirtækið Fermötu sem komið hafa út á vegum alþjóðlega útgáfufyrirtækisins Odradek Records. Nýjasti diskur Duo Ultima, Dances and Delights, var eingöngu unnin hjá Odradek-Records, þ.e. einnig tekinn upp í upptökustúdíói Odradek á Ítalíu.

Tónleikarnir eru í samstarfi við Salinn í Kópavogi og styrktir af Tónlistarsjóði.

Efnisskrá

Snorri Sigfús Birgisson (f. 1954)
Passacaglie (2023)        

Edison Denisov (1929-1996)
Sonate (1970)              
– Allego
– Lento
– Allegro Moderato

Wes Stephens (f. 1983)
Vignettes fyrir einleikssaxófón (2023)      
– Beaux and Arrow
– Saudade
– March of the Bureaucats
– Apparitions
– Falling up

Atli Heimir Sveinsson (1938-2019)
Intermezzo (1976)              

Charles Ross (f. 1965)
These are Ferns (2023)      

Robert Muczinski (1929-2010)
Sonata
– Andante Maestoso
– Allegro Energico

FRAM KOMA

Aladar Razc

Guido Bäumer

Deildu þessum viðburði

ÞÚ GÆTIR HAFT ÁHUGA Á

Sjá meira