14. jan 20:00

Sendið inn dívurnar – AFTUR!

Stórleikkonur snúa aftur og syngja söngleikjalög í Salnum
5.200 - 5.900 kr.

Tónleikarnir voru síðast á dagskrá í október 2021 og nú snúa þær aftur vegna mikillar eftirspurnar!

Stórleikkonurnar og söngdívurnar Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Margrét Eir, Sigríður Eyrún og Þórunn Lárusdóttir færa tónleikagestum veislu af lögum úr söngleikjum sem slegið hafa í gegn á Broadway og West End.

Sum lögin á efnisskránni hafa þær nú þegar sungið á sviði í stórum leikhúsum, sum lögin eru á óskalista þeirra um að fá að syngja einhverntíma á þeim vettvangi og önnur eru fyrir hlutverk sem henta leikkonunum bara alls ekki en lögin smellpassa svo þær syngja þau bara samt!

Um er að ræða einstakt tækifæri þar sem þessar fjórar hæfileikaríku dívur koma saman, fara með tónleikagesti í ferðalag inn í ævintýraheim söngleikjanna og skoða allan tilfinningaskalann.

Jóhanna Vigdís var fastráðin í Borgarleikhúsinu á árunum 2000-2017, þar sem hún tók þátt í ótal leikritum og söngleikjum, má þar m.a. nefna Mary Poppins, Mamma Mia, Kysstu mig Kata, Chicago, Billy Elliot, Söngvaseiður og Grease. Auk leikkonu starfsins hefur hún komið fram á hinum ýmsu tónleikum, m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands og sungið inn á fjölda geisladiska.

Margrét Eir hefur starfað á öllum stærstu leiksviðum landsins og hefur þar leikið og sungið í sumum af vinsælustu söngleikjauppfærslum sem settar hafa verið á svið á Íslandi. Má þar nefna Hárið, Mary Poppins og Vesalingana. Margrét hefur starfað sem sólisti og sungið með helstu tónlistarmönnum landsins bæði í upptökum og á tónleikum. Hún hefur gefið út þrjár sólóplötur og vinnur nú að þriðju plötu hljómsveitarinnar Thin Jim and the castaways. Hún hefur sungið með Sinfóníuhljómsveit Íslands og var ein af aðalsöngkonum Frostrósa.
Hún er nú að æfa söngleikinn Chicago hjá Leikfélagi Akureyrar.

Þórunn á að baki farsælan tveggja áratuga feril sem leikkona en hún hefur starfað hjá öllum helstu leikhúsum landsins, í kvikmyndum og sjónvarpi. Hún var fastráðin við Þjóðleikhúsið í tólf ár, frá árinu 2000, lék þar ótal hlutverk, dramatísk, kómísk og í söngleikjum. Hún hefur einnig unnið með fjölda sjálfstæðra leikhópa, bæði sem leikari og leikstjóri. Meðal eftirminnilegra hlutverka Þórunnar í söngleikjum eru Lína Lamont í „Syngjandi í rigningunni,“ Sally Bowles í „Kabarett“ og Auður í „Litlu hryllingsbúðinni.“

Sigga Eyrún hefur leikið í mörgum uppfærslum söngleikja hér á Íslandi eins og Mary Poppins, Vesalingunum, Gretti, Superstar ofl. Í dag er hún leikari við Þjóðleikhúsið þar sem hún hefur leikið í Kardemommubænum, Nashyrningunum, Framúrskarandi vinkonu og leikur núna í söngleiknum Sem á himni sem frumsýndur var nú í haust.
Sigga Eyrún hefur sungið í Söngvakeppni RÚV, bæði sem bakrödd og sem aðalsöngkona. Árið 2014 gaf hún út sólóplötuna Vaki eða sef og hefur gefið út nokkrar smáskífur síðan og er að vinna í næstu plötu sem von er á 2022.

Meðleikari er Kjartan Valdemarsson á flyglinum.

Kjartan er einn færasti píanóleikari landsins. Hann hefur m.a. unnið í leikhúsunum og því starfað heilmikið með þessum leikkonum. Hann hefur einnig leikið með flestum íslenskum djasstónlistarmönnum og spilað töluvert af popptónlist. Hann er eftirsóttur útsetjari, hefur útsett m.a. fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og Stórsveit Reykjavíkur. Kjartan er einnig afkastamikið tónskáld. 

FRAM KOMA

Jóhanna Vigdís Arnardóttir

Söng- og leikkona

Margrét Eir Hönnudóttir

Söng- og leikkona

Þórunn Lárusdóttir

Söng- og leikkona

Sigríður Eyrún Friðriksdóttir

Söng- og leikkona

Kjartan Valdemarsson

Píanisti

Deildu þessum viðburði

ÞÚ GÆTIR HAFT ÁHUGA Á

Sjá meira