17. mar 13:30

Sundur (& Saman)

2.600 - 5.200 kr.

Nýbreytni, hljómræna, lýrík

Splunkuný og ævintýralega spennandi tónlist fyrir harmonikku hljómar á þessum tónleikum. Jónas Ásgeir Ásgeirsson hefur vakið mikla eftirtekt á undanförnum árum fyrir einstök tök á harmonikkunni og ferskt og áhugavert efnisval. Hann hefur hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir tónlistarflutning sinn og var valinn flytjandi ársins 2022 í flokki sígildrar og samtímatónlistar á Íslensku tónlistarverðlaununum.

Hér flytur Jónas Ásgeir glæný verk eftir Huga Guðmundsson og Sóleyju Sigurjónsdóttur sem eru samin sérstaklega fyrir einleikarann.

Hið ljóðræna og íhugula Fikta (2018) eftir Friðrik Margrétar-Guðmundsson sem prýðir samnefnda og rómaða plötu Jónasar Ásgeirs hljómar hér sem og taktfast og áleitið Fingerprints (2003/2023) eftir Önnu Þorvaldsdóttur, upphaflega samið fyrir sembal en hljómar í nýrri útgáfu fyrir harmonikkuna.

Að ógleymdum smellinum Radioflakes (2004) eftir Atla Ingólfsson, sem þykir eitt magnaðasta og margslungnasta harmonikkuverk seinni tíma.

Á efnisskrá

Friðrik Margrétar-Guðmundsson
Fikta (2018)

Anna Þorvaldsdóttir
Fingerprints (2002 / 2023)
Útsetning Jónasar Ásgeirs fyrir harmonikku

Atli Ingólfsson
Radioflakes (2004)

Hugi Guðmundsson

Pneuma (2023)

Sóley Sigurjónsdóttir
Endoscopic Musectomy (2024)**

Á undan tónleikunum verður boðið upp á tónleikaspjall í forsal Salarins þar sem fjallað verður um efnisskrá dagsins. Tónleikakynningin hefst klukkan 12:30 og stendur í um 30 mínútur.

Aðgangur er ókeypis og öll hjartanlega velkomin.

Hægt verður að kaupa og njóta ljúffengra veitinga frá veitingastaðnum Krónikunni í forsal Salarins frá klukkan 12.

Endoscopic Musectomy

Í Endoscopic Musectomy er harmonikkan meðhöndluð eins og líkami sem er að gangast undir skurðaðgerð. Hljóðfærið er tekið í sundur og hold þess skorið upp. Skurðlæknirinn notar holsjá til að spegla líkamann, framkvæma skurðaðgerð á líffæri sjúklingsins og fletta þannig ofan af anatómíu hljóðfærisins. Endoscopic Musectomy væri hægt að þýða sem tónlistarbrottnámsspeglun” – skurðaðgerð þar sem tónlistin er fjarlægð úr hljóðfærinu með aðstoð holsjár, lítillar myndavélar sem er m.a. notuð við skurðaðgerðir, sem sýnir okkur líffæri hljóðfærisins á meðan á aðgerðinni stendur. 
 
Verkið er afrakstur rannsóknar sem unnin var í samvinnu við Jónas Ásgeir Ásgeirsson árið 2023. Á þessu tímabili könnuðum við óhefðbundna möguleika harmónikkunnar, í þeim tilgangi að vera í senn miðill tónlistar, sjónlista og leikrænna aðferða. 
 
Verkið hlaut styrk úr Launasjóði listamanna árið 2023 og frá Tónskáldasjóði RÚV og STEF.
Sóley Sigurjónsdóttir

Pneuma

Pneuma er orð úr forngrísku sem getur þýtt loft eða andi/sál. Verkið er skrifað á sama tíma og ég var að vinna að innsetningu þar sem áhrif ljóstillífunar á líf okkar mannanna er skoðað og verkið er bæði beint og óbeint innblásið af þeim rannsóknum. Pneuma var pantað af Jónasi Ásgeiri Ásgeirssyni með stuðningi frá Kodas Kulturelle Midler og Statens Kunstfond.
Hugi Guðmundsson 

FRAM KOMA

Jónas Ásgeir Ásgeirsson

Harmonikka

Deildu þessum viðburði

ÞÚ GÆTIR HAFT ÁHUGA Á

Sjá meira