Unnsteinn Manuel söngvaskáld

Söngvaskáld er spennandi ný tónleikaröð sem beinir kastljósinu að tónlistarfólki sem semur og flytur eigin tónlist. Tónleikagestir fá innsýn inn í aðferðir og ferli lagahöfundanna auk þess að heyra skemmtilegar sögur af tilurð þjóðþekktra laga. 

Una Torfadóttir reið á vaðið 29. september síðastliðinn og troðfyllti Salinn, langur biðlisti var eftir miðum svo ákveðið var að setja aukatónleika í sölu en þeir verða 10. febrúar 2024. 

Una Torfadóttir heillaði áhorfendur með einlægum tónleikum

Nú er hins vegar komið að hinum magnaða listamanni Unnsteini Manuel Stefánssyni að troða upp en hann kemur fram með spennandi dagskrá laugardagskvöldið 14. október næstkomandi. 

Unnsteinn Manuel er fjölhæfur lagahöfundur. Það getur reynst erfitt að skilgreina tónlist hans en hún er samin af mikilli tilfinningu og með sterkum takti. Á ferli sínum hefur Unnsteinn samið fyrir fjölda hljómsveita sem hann hefur sungið með. Þar að auki hefur hann átt góðu gengi að fagna sem sólóisti. Hann hefur unnið samstarfsverkefni með tónlistarfólki á borð við Aron Can, Emmsjé Gauta, FM Belfast, Hjaltalín og Hermigervil. Unnsteinn var tilnefndur til tveggja Grímuverðlauna í ár, bæði fyrir tónlist og hljóðmynd í leikritinu Íslandsklukkan í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar.  

Við tókum púlsinn á honum nú þegar að rétt rúm vika er stóra kvöldið.

Þetta eru frekar persónulegir tónleikar þar sem þú ert að hleypa fólki inn í vinnuferlið þitt –  hvernig tilfinning er það? 

Undanfarin ár hef ég gert mjög mikið af því að sýna fólki bakvið tjöldin, ég neyddi mig eiginlega til þess með hlaðvarpi sem ég gaf út sem heitir Amatör. En ég hef ekki gert mikið af því á sviði, þannig að þessir tónleikar verða aðeins öðruvísi. Meira hlegið minna hoppað vonandi.  

Hvað er, ef eitthvað, mest krefjandi við að vera tónlistamaður í dag? 

Ég held að það sé hraðinn á vissan hátt. Það er eiginlega ekki í boði lengur að eyða nokkrum árum í að taka upp plötu eins og ég ólst upp við. Í dag verður maður eiginlega að vera stöðugt að gefa út og stöðugt að spila.  

Frá sköpun til flutnings, er einhver tímapunktur sem þú stoppar alltaf við, eða er mest spennandi, stendur upp úr í ferlinu á einhvern hátt? 

Það er alltaf að breytast, undanfarin ár staldra ég alltaf meira við textasmíðina. Salurinn er líka frábært tónleikahús til að heyra söng og texta þannig að ég er búinn að velja lögin aðeins eftir því.  

Hvert sækir þú innblástur? Er það ólíkt eftir samstarfsaðilum? Er það ólíkt eftir listformi, þar sem þú hefur starfað þvert á miðla/listgreinar? 

Ég hlusta mjög mikið á tónlist og sérstaklega latin tónlist og fæ mikinn innblástur frá slagverki og töktum. En eftir því sem ég eldist met ég það svo mikils að vinna með ólíku fólki og það er heilmikill innblástur að spila með ólíku fólki og njóta tónlistar saman. Mesti innblásturinn kemur þó frá áhorfendum, það er ómetanlegt að prufukeyra ný lög fyrir framan fullan sal af fólki og kanna viðbrögð þeirra við tónlistinni. Þessi viðbrögð hafa heilmikil áhrif á lokaútgáfu tónlistarinnar.  

Nú startaði Una Torfadóttir tónleikaröðinni og þú mættir í Salinn, ertu kominn með hnút í magan eða bara spenntur? 

Una var með rosalega flotta tónleika þar sem öllu var til tjaldað. Ég fór meira að segja beint eftir tónleikana og bað gítarleikarann hjá henni að spila með minni hljómsveit á mínu kvöldi. Una spilaði fullt af lögum sem hún samdi þegar hún var unglingur og þetta voru frábær lög með æðislegum textum, ég fæ kannski smá hnút í magan yfir því að syngja fyrir fólk lögin sem ég var að semja sem unglingur, en ég held að það verði líka ákveðin heilun í því.  

Við hverju má fólk búast á tónleikunum þann 14.okt nk? 

Ég er búinn að setja saman þrusuband, við verðum fjórir úr Retro Stefson á sviðinu þannig að sándið verður alveg okkar en svo koma tveir úr bandinu með gjörólíka nálgun á þessa tónlist.  Þetta verða langir tónleikar þannig að ég er viss um að áhorfendur fari sáttir heim. 

Salurinn – Söngvaskáld | Unnsteinn Manuel – Velja miða (tix.is) 

Hlökkum til að sjá ykkur.  

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

12. sep

14. sep / kl. 20:30

19. sep / kl. 20:30

20. sep / kl. 20:00

20. sep - 09. maí / kl. 20:00

21. sep / kl. 20:00

27. sep / kl. 20:00

28. sep / kl. 20:00

29. sep / kl. 13:13

29. sep / kl. 12:30

03. okt

05. okt / kl. 15:00

Sjá meira

NÝJUSTU FRÉTTIR