Oddur Arnþór Jónsson er einn ástsælasti óperusöngvari landsins. Hann hefur hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin sem söngvari ársins og sungið fjölda óperuhlutverka innanlands sem erlendis. Oddur er einnig margverðlaunaður og fágaður ljóðasöngvari, eins og áhorfendur fá að kynnast á tónleikunum Ástir skáldsins. Með honum leikur Eva Þyri Hilmarsdóttir. Þau flytja okkur meistaraverkið Dichterliebe, sem er þekktasti ljóðaflokkur Roberts Schumanns. Í honum fær ást tónskáldsins á ljóðlistinni útrás í einstakri einingu orða og tóna. Eftir hlé skipta þau um gír og flytja okkur óperuaríur eftir snillinginn Mozart.
Syngjandi í Salnum er ný tónleikaröð sem hóf göngu sína í Salnum í Kópavogi í febrúar 2022. Listrænn stjórnandi hennar er Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir söngkona. Í röðinni er boðið upp á söngtónleika með nokkrum af fremstu klassísku söngvurum Íslands. Hverjir tónleikar verða nokkurs konar ,,portrett“ tónleikar, sem gefa mynd af listamanninum. Á blandaðri efnisskránni er undirstöðuefnið oft íslenskur og erlendur ljóðasöngur ásamt óperuaríum. Tónleikaröðin býður upp á sjö tónleika yfir tónleikaárið 2022-2023.