20. jún 21:00 – 22:30

Davíð Þór Jónsson og Eyþór Gunnarsson

Flyglaflug á Jónsmessu

Síðkvöldstónleikar á sumarsólstöðum með tveimur af fremstu tónlistarmönnum landsins. Davíð Þór Jónsson og Eyþór Gunnarsson hafa áður tekið höndum saman í óbeisluðu spunaflugi við frábærar undirtektir. Hér leika þeir á tvo flygla Salarins á bjartasta degi ársins. Ekki missa af þessu undurfallega óvissuferðalagi.

Það var á Djasshátíð Reykjavíkur árið 2009 sem þeir Davíð Þór Jónsson og Eyþór Gunnarsson opinberuðu sitt samspil – sína tvíflygni – sem hafði fram að því að mestu farið fram fyrir luktum dyrum.

Til stóð að nokkrir íslenskir píanistar flyttu stuttar einleiksdagskrár í Norræna húsinu. Allir tóku vel í hugmyndina þegar til þeirra var leitað. Davíð Þór hringdi skömmu eftir að þetta var fastmælum bundið og tilkynnti að þeir Eyþór ætluðu að spila dúett. Djassdagskrárstjórinn fór beint í úrtöluhaminn og benti á að aðeins væri einn flygill i Norræna húsinu. “Haf þú engar áhyggjur af því” var svarið.

Þannig hófst það sem hefur verið likt við “impressjónískt ferðalag hrekkjóttra engla” (V. Linnet MBL 2009) og “óvissuferð á sjóskíðum aftan í stjórnlausum hraðbáti” (E.G. RÚV 2023). Tvíleikur Eyþórs og Davíðs er oft lyginni líkastur. En hann er líka alltaf sannur. Farangurinn skilinn eftir frammi. Strípað músíkalitet slaghörpuleikaranna einu spjarirnar. Í hverju ætli þeir verði?

Pétur Grétarsson

Dav­íð Þór er með­al fjöl­hæf­ustu tón­list­ar­manna lands­ins, jafn­víg­ur á pí­anó­leik, spuna, tón­smíð­ar og hljóm­sveit­ar­stjórn auk þess sem hann leik­ur á ógrynni hljóð­færa. Hann hef­ur leik­ið með flest­um tón­list­ar­mönn­um lands­ins og spil­að á tón­list­ar­há­tíð­um um all­an heim.

Eyþór Gunnarsson er einn atkvæðamesti tónlistarmaður Íslands. Hann hefur átt langt og farsælt samstarf við ógrynni tónlistarmanna úr flestum geirum tónlistar og er margverðlaunaður fyrir hljómborðs- og píanóleik sinn. Eyþór hefur spilað inn á vel á annað hundruð íslenskar hljómplötur og hefur einnig átt samstarf við fjölmarga erlenda tónlistarmenn og spilað á tónleikum um allan heim.

FRAM KOMA

Davíð Þór Jónsson

píanóleikari

Eyþór Gunnarsson

píanóleikari

Deildu þessum viðburði

05. okt / kl. 15:00

Sjá meira

ÞÚ GÆTIR HAFT ÁHUGA Á

Sjá meira