Jón Ólafsson hefur stýrt tónleikaröðinni Af fingrum fram um árabil og hefur loksins látið undan fjölda áskorana og verður nú nánast eigið viðfangsefni! Hann hyggst þó ekki tala við sjálfan sig heldur mun Sóli Hólm, skemmtikrafturinn geðþekki, sjá um að spyrja Jón spjörunum úr. Jón fagnaði fyrr á árinu sextugsafmæli sínu með glæsilegum afmælistónleikum í Eldborg. Hann hefur samið eitt og annað sem fólk kannast við og mætti þar nefna Tunglið mitt, Líf, Alelda, Sunnudagsmorgun og Flugvélar sem dæmi.
Jón Ólafs snýr aftur með spjalltónleikaröðina sína, Af fingrum fram. Röðin hefur fyrir löngu fest sig í sessi hjá tónlistarunnendum landsins en Jón hefur á síðastliðnum fimmtán árum fengið til sín yfir 50 listamenn og hafa fleiri en 30.000 áhorfendur hrifist og hlegið með á þessum einstöku kvöldum Í Salnum.