Meistaraverkið Kafka Fragments (1985-6) eftir ungverska tónskáldið György Kurtág er óvenjulegt og nýstárlegt í tónmáli og efnistökum og hefur einungis einu sinni verið flutt hér á landi, enda afar krefjandi fyrir flytjendur. Verkið er sérstakt fyrir margar sakir og er eitt fárra verka sem samin hafa verið fyrir sópran og fiðlu og án efa það viðamesta. Verkið er safn fjörutíu smámynda sem allar eru byggðar á þankabrotum úr bréfum og dagbókarfærslum Franz Kafka; aðgengilegum og oft fyndnum hugleiðingum og spakmælum um heima og geima sem snerta okkur ekki síður nú en þegar orðin voru rituð.
Flytjendur eru sópransöngkonan Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir og fiðluleikarinn Rannveig Marta Sarc en þær hafa báðar sérhæft sig í flutningi á nýlegri tónlist. Leiðir þeirra lágu einmitt saman við frumflutning á þremur nýjum íslenskum verkum á Óperudögum í Eldborg í nóvember 2022 þar sem Ragnheiður söng og stjórnaði kammersveit sem Rannveig leiddi sem konsertmeistari. Þá hefur Rannveig frumflutt fjölmörg verk, bæði með píanóleikurum og sem meðlimur í dúó Freyju.
Tónleikarnir eru um ein klukkustund, án hlés.
Verkefnið er styrkt af starfslaunum listamanna, Tónlistarsjóði, Lista- og menningarsjóði Kópavogs og Óperudögum.