Syngjandi börn í Kársnesskóla fagna hækkandi sól og tilvonandi plötuútgáfu á Kórahátíð Kársness sem haldin verður í Salnum í Kópavogi laugardaginn 13.maí kl. 11-16. Á tónleikunum verður formlega hafin forsala á plötu sem gefin verður út á haustdögum en upptökur fóru fram í mars síðastliðnum. Platan mun innihalda nýtt og nýlegt efni fyrir barnakóra þar sem stór og smá kórbörn Kársnesskóla þenja raddböndin. Alls verða tónleikarnir þrír talsins.
Kl. 11:00
1.bekkur – Minnsti kór Kársness
4.bekkur – Litli kór Kársness
Skólakór Kársness
Kl. 12:30
3.bekkur – Minni kór Kársness
5.-6.bekkur – Krakkakór Kársness
Skólakór Kársness
Kl. 14:30
2.bekkur – Minnsti kór Kársness
7.bekkur – Kórstuð Kársness
Skólakór Kársness
Aðgangseyrir á hverja tónleika er 1.500 kr og hvetjum við alla kóraunnendur Kársnessins og víðar til að fjölmenna meðan húsrúm leyfir. Einnig verður hægt að kaupa dagpassa fyrir 3.500 kr. Ókeypis er fyrir börn 12 ára og yngri með fyrirvara um laus sæti. Á staðnum verður hægt að panta plötuna “Nú er fagrir söngvar óma” í forsölu og en afhending verður á haustdögum á stafrænu formi, í formi geisladisks eða vinylplötu.
Verkefnið er styrkt með framlagi úr lista- og menningarsjóði Kópavogsbæjar og Tónlistarsjóði Rannís.
Skólakór Kársness var stofnaður árið 1976 og hefur frá upphafi spilað stóran part í skólastarfi Kársnesskóla. Stjórnandi kórsins er Álfheiður Björgvinsdóttir og henni til aðstoðar Þóra Marteinsdóttir. Allir nemendur Kársnesskóla koma að kórstarfinu á sínum námsferli og eru í kringum 400 börn í kór á hverju ári. Sönghefðin er rík og Kársnesskóli „syngjandi skóli“.