Gullfalleg ópera Puccinis í nýrri og spennandi útsetningu tveggja frábærra tónlistarmanna. La Bohéme hefur notið fádæma vinsælda allar götur frá því hún var frumflutt í Turin á Ítalíu árið 1896 enda full af dramatík, litbrigðum og heillandi laglínum.
Tíbrá tónleikaröð er styrkt af Lista- og menningarráði Kópavogs
Hér er verkinu miðlað í tærum og innilegum hljóðheimi fiðlunnar og píanósins en textum, sviðslýsingu og slitrum úr skáldsögu Henri Murger, sem ópera Puccinis byggir á, er varpað á tjald að baki tónlistarmönnunum svo óperan lifnar við í hugskoti áheyrenda. Hjartnæmar ástarsenur jafnt sem iðandi stræti Parísarborgar hljóma í meðförum tónlistarmannanna tveggja en þessi einstaka nálgun við óperu Puccinis var frumflutt árið 2019 á Podium tónlistarhátíðinni í Noregi og hefur síðan hljómað víða í Evrópu, meðal annars í Elbfilharmonie í Hamborg.
Einstök kvöldstund fyrir hvort tveggja forfallna óperuaðdáendur og alla aðra sem eru forvitnir um nýjar og skapandi leiðir að meistaraverkum fyrri alda.