Óðfræðifélagið Boðn efnir til málþings á Dögum ljóðsins í Kópavogi.
Félagið gefur út tímaritið Són sem nýlega fagnaði 20 ára afmæli og er málþingið haldið til að minna á nauðsyn þess hafa slíkan vettvang þar sem fjallað er um ljóðlist að fornu og nýju. Són er eitt fárra tímarita á Íslandi sem birtir greinar um ljóðlist auk ritdóma um nýútkomnar bækur. Þá birtir það einnig mikið af ljóðum. Á þinginu verða haldin stutt erindi um málefni dagsins en auk þess flutt ljóð og ljóðaþýðingar og hvatt til umræðna.
Þrír frummælendur verða á þinginu.
Haukur Þorgeirsson, rannsóknarprófessor við Árnastofnun, rekur útgáfusögu tímaritsins og vekur athygli á athyglisverðu efni sem það hefur birt í gegnum tíðina.
Ægir Þór Jänke, ljóðskáld og þýðandi, fjallar um ljóðaþýðingar af erlendum málum yfir á íslensku og nauðsyn þess að skrifa um þær og gagnrýna á einn eða annan hátt.
Soffía Auður Birgisdóttir, bókmenntafræðingur, ritstjóri Sónar, ræðir um nauðsyn þess að fjalla um bókmenntaverk í fjölmiðlum og annars staðar á opinberum vettvangi.
Á þinginu lesa einnig þrjú skáld eigin ljóð, þær Linda Vilhjálmsdóttir, Þóra Elfa Björnsson og Birgitta Björg Guðmarsdóttir.
Í lokin verða umræður og kaffiveitingar. Á þinginu verður hægt að blaða í gömlum árgöngum af Són og skrá sig í áskrift.
Málþingið heft kl. 12.00 laugardaginn 27. janúar og er opið öllu áhugafólki um ljóð og óðfræði. Aðgangur er ókeypis.
Viðburðurinn er styrktur af lista- og menningarráði Kópavogsbæjar.