27. apr 13:30

Mánasilfur

Björg Brjáns, Hrafnhildur Marta og Richard Schwennicke.
3.900 - 4.500 kr.

Undursamleg kammertónlist eftir Claude Debussy, Clöru og Robert Schumann, Heitor Villa-Lobos og Skúla Hallldórsson í flutningi þriggja frábærra hljóðfæraleikara, Bjargar Brjánsdóttur á flautu, Hrafnhildar Mörtu Guðmundsdóttur á selló og Richard Schwennicke á píanó.

Gullfallegt Píanótríó Claude Debussy er þungavigtarverk þessara tónleika en verkið samdi franska tónskáldið einungis átján ára gamalt, árið 1880. Hér hljómar tríóið í útgáfu fyrir þverflautu, selló og píanó en tónmál þessa draumkennda og ljóðræna verks hentar flautunni einkar vel.

Þrjár rómönsur (1853) Clöru Schumann eru fullar af skemmtilegum andstæðum, trega jafnt sem dillandi leikgleði en rómönsurnar samdi Clara upphaflega fyrir fiðluvirtúósinn Josep Joachim. Það hljómar hér í töfrandi útgáfu fyrir flautu og píanó.

Robert Schumann samdi Adagio og Allegro árið 1849 en þetta hárómantíska verk hljómar hér í útgáfu fyrir selló og píanó. Flauta og selló takast á og leika listir sínar í krefjandi og fjörugum dúett eftir Heitor Villa-Lobos og ekki má gleyma titilverki tónleikanna, Mánasilfri Skúla Halldórssonar, heillandi en sjaldheyrðri perlu úr íslenskum tónbókmenntum.

Efnisskrá

Clara Schumann (1819 – 1896)
Þrjár rómönsur, op. 22 

Robert Schumann (1810 – 1856)
Adagio og Allegro, op. 70 

Heitor Villa-Lobos (1887 – 1959)
Assobio a Jato fyrir flautu og selló

Skúli Halldórsson (1914 – 2004)
Mánasilfur (fyrir flautu, selló og píanó) 

Claude Debussy (1862 – 1918)
Píanótríó í G-dúr 

Á undan tónleikunum, klukkan 13:00, verður boðið upp á spjall um efnisskrá tónleikanna í fordyri Salarins.

Tónleikarnir eru styrktir af lista- og menningarráði Kópavogsbæjar.


Tónleikaröðin Tíbrá hefur fest sig í sessi hjá tónlistarunnendum sem ómissandi hluti af klassískri tónlistarsenu landsins. Með Tíbrá leitast Salurinn við að bjóða upp á lifandi tónlistarflutning þar sem hefðbundnum klassískum tónleikum er teflt saman við tilraunir, nýja nálgun og jafnvel ögrun við tónleikaformið. Við val á verkefnum er sérstaklega horft til nýsköpunar og frumlegrar nálgunar á klassískt höfundarverk í framúrskarandi flutningi.

Deildu þessum viðburði

27. apr / kl. 13:30

18. maí / kl. 13:30

Sjá meira

Sjá meira

ÞÚ GÆTIR HAFT ÁHUGA Á

Sjá meira