Tónlistarmaðurinn og Ólympíufarinn Már Gunnarsson heldur tvenna tónleika á Íslandi og þá þriðju í Manchester ásamt The Royal Northern College of Music Session Orchestra. Tilefnið er útgáfa nýrrar plötu Más, sem ber titilinn Orchestral Me.
Á tónleikunum verður platan flutt í heild sinni auk vel valinna laga í ævintýralegum sinfónískum útsetningum.
Sérstakir heiðursgestir sýningarinnar verða, hinn eini sanni Laddi og stórsöngkonurnar Ísold og Iva.
RNCM Session Orchestra skipa 30 ungir stórkostlegir hljóðfæraleikarar. Þessir tónlistarmenn eru upprennandi stjörnur ensku sinfóníu-elítunnar en nú þegar hafa þau spilað með stórhljómsveitum á borð við BBC Philharmonic,The Hallé -Manchester Camerata, Royal Liverpool Philharmonic Orchestra og Opera North.
Á plötunni Orchestral Me leyfa höfundar sér að fara alla leið í að skapa ævintýraheim, þar sem tónlistin gæti vel sómað sér í gömlu uppáhalds Disney-myndinni frá því í barnæsku.
Platan er afrakstur dvalar Más í Englandi þar sem hann stundar nám við einn virtasta tónlistarháskóla Englands að ógleymdri vináttu og samstarfi við textahöfundinn Tómas Eyjólfsson.
RNCM Session Orchestra spilar inn á plötuna en útsetningar á lögunum eru í höndum Þóris Baldurssonar og Stefáns Arnar Gunnlaugssonar sem er einnig yfirupptökustjóri.
Það var draumi líkast að fá tækifæri til þess að taka upp tónlistina mína með heimsklassa tónlistarfólki í Manchester, en dvöl mín erlendis veitti mér innblástur til framkvæmdarinnar.
Ég get ekki beðið eftir að koma heim til Íslands ásamt þessum snillingum og deila með ykkur afrakstrinum af vinnu okkar.
Ég vona að fólk taki nýju plötunni minni vel, en ég hef notið sköpunarferlisins í samvinnu við góða vini og stórkostlega tónlistarmenn.
Már Gunnarsson
Hljómsveitarstjórnandi professor Andy Stott, aðstoðarstjórnandi MR. Eden Saunders
Samstarfsaðilar eru; Hljómahöll, Rétturinn Keflavík, Hotel Keflavík, Skólamatur, Icelandair, Langbest, K. Steinarsson og Bus4U.