Öllu verður til tjaldað en hljómsveitina skipar glæsilegt hrynband, 12 manna strengjasveit, tré og málmblásturshljóðfæri, slagverk og söngvarar.
Á tónleikunum fá áhorfendur að heyra tónlist Más í bland við sígilda slagara í nýjum sinfónískum útsetningum.
Heiðursgestur sýningarinnar verður hinn víðfrægi enski söngvari Wayne Ellington.
Í nóvember 2024 hélt Már sína fyrstu tónleika ásamt RNCM session Orchestra við frábærar undirtektir. Í framhaldi hefur hann komið fram með sveitinni á fjölda viðburða í Englandi; má þar helst nefna tvenna uppselda tónleika í Manchester, og framkomu á tónlistarhátíðinni Candle Calling.
Ætlunin er að gera enn betur á Íslandi í nóvember, mikið er lagt í tónleikana sem verða stærri og veglegri en nokkru sinni fyrr.
Enski söngvarinn Wayne Ellington sem sló svo eftirminnilega í gegn í The Voice Uk verður sérstakur heiðurssöngvari tónleikanna í ár. Wayne hefur snert hjörtu milljóna manna um heim allan með söng sínum, en þetta verður í fyrsta sinn sem hann kemur fram á Íslandi. Hann hefur deilt sviði með hljómsveitinni Blur og sungið í brúðkaupi Prince Harry og Meghan Markle svo eitthvað sé nefnt.
Íslenska diskóhljómsveitin Krullur hitar upp fyrir tónleika.
Þau Anya Benidikt og Kjalar eru landsmönnum góðkunnug úr Idolinu og söngvakeppni sjónvarpsins. Saman koma þau fram sem Krullur og mega áhorfendur búast við kraftmiklum bassalínum, skemmtilegum textum og tónlist fullri af stuði.
Húsið opnar klukkan 18:30. Krullur spila frá klukkan 19:10 til 19:40.
Már stígur á svið ásamt the Royal Northern College of Music session Orchestra klukkan 20:00 Tónleikunum lýkur klukkan 22:00
Styrktaraðilar tónleikanna eru: uppbyggingarsjóður Suðurnesja, K. Steinarsson, menningarsjóður Reykjanesbæjar, Rétturinn, Bus4U, Kökulist og Sporthúsið Reykjanesbæ.