MOVE, kvartett Óskars Guðjónssonar, kemur fram í tónleikaröðinni Sumarjazz í Salnum. Kvartettinn skipa Eyþór Gunnarsson á hljómborð og píanó, Óskar Guðjónsson á saxófón, Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson á kontrabassa og Matthías M. D. Hemstock á trommur og slagverk.
Aðgangur er ókeypis og öll hjartanlega velkomin á meðan húsrúm leyfir. Léttar veitingar til sölu.
Sumarjazz í Salnum sumarið 2024
13. júní: Bogomil Font og hljómsveit
20. júní: Ingibjörg Turchi og hljómsveit
27. júní: MOVE, kvartett Óskars Guðjónssonar
4. júlí: Tríó Kristjönu Stefánsdóttur
11. júlí: Kvartett Edgars Rugajs
18. júlí: Los Bomboneros
Sumarjazz í Salnum er styrktur af lista- og menningarráði Kópavogsbæjar.
UM MOVE
Fyrir rúmum sjö árum setti saxófónleikarinn Óskar Guðjónsson saman kvartett til að spilasaman handskrifaðar tónsmíðar sem höfðu safnast upp í vönduðum skissubókum hans um árabil.
Það kom fljótlega í ljós að þarna var verkefni sem allir meðlimir voru tilbúnir að setja mikinn tíma í og tileinka sér það sem skrifað var á þessar síður.
Upp úr þessu þróaðist samstarf sem fór fram í vinnustofu Eyþórs Gunnarssonar og gekk út á að spila lögin endurtekið og velta þeim fyrir sér og prófa ólíkar nálganir. Samhliða því að tónlistin fór að taka á sig mynd byggðist upp sterkt samband á milli þeirra sem eiga sína upphafsstafi í nafninu MOVE sem auk Óskars og Eyþórs eru Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson á bassa og Matthías Hemstock á trommur.
Á tímum tölvuvæðingar hafa handskrifaðar nótur orðið sjaldséðari en um leið tapast ákveðin fínni blæbrigði sem geta skipt máli. Óskar hefur fyrir löngu skapað sér persónulegan stíl í tónsmíðum sínum sem endurspeglast í rithöndinni og því hvað hann kýs að skrifa niður og hvað ekki.
Það helst einnig í hendur við þá nálgun sem hann leitar
að í flutningnum sem er vandlega mótaður en um leið opinn fyrir hinu óvænta. Þetta tengist lönguninni til að lögin öðlist sjálfstætt líf og geti fengið að þroskast og breytast eftir því sem tíminn og aðstæður bjóða upp á.
Þó lögin séu textalaus bera þau öll nöfn sem eru sprottin af vangaveltum um lífið, tilveruna, fólk og fyrirbæri sem því tengist. Skissubækurnar eru því einnig nokkurs konar dagbækur
sem taka á málum sem koma upp í lífinu.
Nánast allar æfingar MOVE hafa verið hljóðritaðar og partur af vinnuferlinu er að hlusta yfir upptökurnar til að greina kjarnann í hverju lagi fyrir sig. Það eru ófár klukkustundirnar af efni sem hefur safnast upp og í leiðinni margir lítrar af sódavatni og úrvals kaffi sem hafa runnið niður.
Dropinn holar steininn og eftir allan þennan tíma eiga meðlimir MOVE núna sameiginlegan hugmyndaheim sem hægt er að stíga inn í og sjá hvert hann tekur bæði þá og áheyrendur í það og það skiptið. Brottfararstaður hverju sinni liggur fyrir en svo má óvissuferðin byrja.