20. sep 20:00 – 23:00

Söngleikjastælar | Hansa & Una Torfa

Sigga Eyrún, Bjarni Snæbjörnsson og Karl Olgeirsson ásamt hljómsveit munu leiða áhorfendur gegnum sannar tilfinningar, fallegar melódíur og háar nótur með magnaðri söngleikjatónlist. Á þessa bráðskemmtilegu tónleika mæta Hansa og Una Torfa sem gestasöngvarar og flytja nokkur af sínum uppáhalds söngleikjalögum.  

SMELLTU HÉR OG FÁÐU 50% AFSLÁTT Á ALLA FIMM TÓNLEIKANA Í RÖÐINNI

Sigga Eyrún og Bjarni Snæbjörnsson eru ástríðufullir söng-leikarar. Síðustu ár hafa þau verið lúsiðin við að leika í söngleikjum eða setja upp og sýna eigin söngleiki eða tónleika tengda söngleikjum. Vinátta þeirra er samofin hinu konunglega söngleikjapari Viggó og Víólettu, sem skemmt hafa landanum í mörg ár á árshátíðum, í afmælum og víðar. Þá hafa Bjarni og Sigga hafa leikið og sungið í mýmörgum söngleikjum gegnum árin í bæði Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu, þar má nefna Vesalingana, Mary Poppins, Kardemommubæinn, Sem á himni, Slá í gegn, Ronju Ræningjadóttur, Jesus Christ Superstar, Frost og Góðan daginn, faggi.

Bjarni lauk leikaranámi með BFA gráðu frá sviðslistadeild Listaháskóla Íslands 2007 og er með MA gráðu í listkennslufræðum. Bjarni er einnig með margra ára söngnám að baki, meðal annars frá Söngskólanum í Reykjavík og Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn. Bjarni hefur komið víða við á sínum ferli, hvort sem er á sviði, í leikhúsi eða kvikmyndum. Hann hefur verið afkastamikill hjá sjálfstæðum leikhópum og hefur leikið í klassískum og nýjum verkum. Þar má nefna Jim í Glerdýrunum eftir Tennessee Williams og Fyrirlestur um eitthvað fallegt (á vegum Smartílab) og verkefnum leikhópsins Stertabendu: Góðan daginn, faggi, Stertabenda og Insomnia. Hann var einnig hluti af sýningarhóp Improv Ísland í 10 ár. Þá hefur hann mikla reynslu af að koma fram sem söngvari, á skemmtunum og sem veislustjóri og sungið á tónleikaröðum og tónleikum sérstaklega tileinkuðum söngleikjum og leikhústónlist, meðal annars með Sinfóníuhljómsveit Norðulands. Í vetur leikur Bjarni í Frosti í Þjóðleikhúsinu, en hann lék hér áður í Kardemommubænum, Framúrskarandi vinkonu, Jónsmessunæturdraumi, Vesalingunum og fleiri verkum. Hann lék í og samdi söngleikinn Góðan daginn, faggi sem sýndur var hér fjölmörgum sinnum í Kjallaranum, á Stóra sviðinu og fór í leikferð um landið í skóla á vegum Þjóðleikhússins, auk þess sem sýningin var sýnd á Edingborg fringe.

Heimasíða
Facebook
Instagram
 

Sigga Eyrún útskrifaðist úr söngleikjadeild Guildford School of Acting. Hún lærði söng í Söngskólanum í Reykjavík, FÍH og CVI og er með kennsluréttindi (M.Art.Ed) frá Listaháskóla Íslands. Sigga hefur leikið í fjölda verkefna í helstu leikhúsum landsins og í sjónvarpi ásamt því að eiga farsælan feril við talsetningar á teiknimyndum og hljóðbókalestri. Í Þjóðleikhúsinu lék hún meðal annars í: Sem á himni, Framúrskarandi vinkonu, Kardemommubænum, Nashyrningunum, Leitinni að jólunum og Vesalingunum. Í Borgarleikhúsinu lék hún í Mary Poppins, Söngleiknum Gretti, Superstar, Sarínó Sirkúsnum og hjá Leikfélagi Akureyrar lék hún í Ball í Gúttó. Hún hefur einnig leikið í uppfærslum hjá sjálfstæðum leikhópum og má þar nefna: Endurminningar Valkyrju í Tjarnarbíói, Hrekkjusvínin í Gamla bíói, Uppnámi (Viggó og Víóletta) í Þjóðleikhúskjallaranum. Sigga var um tíma meðlimur í Improv Ísland. Hún hefur komið víða fram sem söngkona, meðal annars í Söngvakeppni RÚV, og gaf út sólóplötuna Vaki eða sef árið 2014.

Af öðrum sýningum má nefna Endurminningar valkyrju, We Will Rock You, Ronja ræningjadóttir, Kalli á þakinu, Rómeó og Júlía, Einræðisherrann, Kabarett, Shakespeare verður ástfanginn, Fame og Djöflaeyjan. Einnig tók hann þátt í Chicago, Lína langsokkur, Litla hryllingsbúðin, Kysstu mig Kata, Rocky Horror Show og mörgum fleirum

Facebook
Instagram
Youtube
TikTok

Karl O. Olgeirsson (1972) hefur starfað sem tónlistamaður frá unga aldri. Hann hefur stjórnað upptökum á hátt í 50 hljómplötum og leikið inn á margar fleiri. Hann hefur starfað með ýmsum hljómsveitum og helstu söngvurum landsins. Hann var tónlistarstjóri og útsetjari Frostrósatónleikana í rúmlega 10 ár. Hann heldur úti hljómsveitunum Karl Orgeltríó, DJÄSS og Jazzdjöflunum, er stjórnandi kórsins Seims og er tónlistarstjóri Ástjarnarkirkju í Hafnarfirði. Hann hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2019 fyrir plötu sína, Mitt bláa hjarta sem valin plata ársins í djass og blúsflokki og sem tónskáld ársins í sama flokki. Sama ár hlaut hann Grímuverðlaun fyrir Einræðisherrann sem Þjóðleikhúsið setti upp.Karl hefur starfað sem tónlistarstjóri í mörgum leiksýningum , nú síðast í Eitruð lítil pilla og Fíasól gefst aldrei upp í Borgarleikhúsinu og Kardemommubænum í Þjóðleikhúsinu.

Deildu þessum viðburði

Sjá meira

ÞÚ GÆTIR HAFT ÁHUGA Á

05. okt / kl. 15:00

Sjá meira