06. okt 19:30

TEENS – Questions for Teenagers

4.500 - 4.900 kr.

Hin rómaða kammersveit Ensemble MidtVest ásamt tónlistarstjörnunum Teiti frá Færeyjum, Nive frá Grænlandi og Ólöfu Arnalds frá Íslandi frumflytja verkið TEENS – Questions for Teenagers, glænýtt og hrífandi tónverk eftir Teit.

Verkið TEENS – Questions for Teenagers er innblásið af röddum unglinga og viðtölum sem tekin voru við ungmenni frá Danmörku, Færeyjum, Grænlandi og Íslandi á árunum 2023 – 2024. Hverjar eru vonir þeirra og þrár, áskoranir og vonbrigði, gleði og sorgir? Raddir ungmennanna lifna við í þessu einstaklega heillandi verki þar sem saman renna sígild hljóðfæri kammersveitarinnar og söngraddir Teits, Nive og Ólafar.

Verkið verður flutt á þrennum tónleikum í október, að loknum frumflutningi í Salnum fara fram tónleikar í Norræna húsinu í Þórshöfn, Færeyjum og í Slagteriet í Holstebro í Danmörku.

Ensemble Midtvest hefur starfað frá árinu 2002 við frábært orðspor en sveitin er skipuð níu úrvals tónlistarmönnum sem koma víða að. Hljómsveitin gerir út frá Danmörku en hefur komið fram víða um heim á virtum tónlistarhátíðum og tónleikastöðum svo sem ULTIMA tónlistarhátíðinni í Osló og Carnegie Hall í New York. Á meðal listafólks sem sveitin hefur starfað með má nefna fiðluleikarann Pekka Kuusisto, víóluleikarann Jennifer Stumm, sellistann Andreas Brantelied, klarinettuleikarann Martin Fröst og barítonsöngvarann Bo Skovhus.

Hljómsveitin hefur vakið athygli fyrir ferskt og áhugavert efnisval þar sem nýju lífi er blásið í aldagamla tónlist jafnframt því sem áhersla er á samtímatónlist úr ólíkum áttum, jafnt skrifaða tónlist sem spunakennda. Þetta er í fyrsta sinn sem hljómsveitin kemur fram á Íslandi.

Teitur Lassen er margverðlaunaður tónlistarmaður, fæddur árið 1977 í Færeyjum. Hann vakti fyrst athygli árið 2003 með plötu sinni Poetry and Aeroplanes sem hlaut frábærar viðtökur gagnrýnenda og tónlistarmanna á borð við Rufus Wainwright og Aimee Mann sem buðu Teiti í kjölfarið að koma fram með sér á tónleikum. Teitur hefur síðan sent frá sér sex rómaðar breiðskífur, komið fram á tónleikum um allan heim og starfað með tónlistarfólki og -hópum úr ólíkum geirum svo sem International Contemporary Ensemble, Netherlands Wind Ensemble, Nico Muhly, Ane Brun og Aarhus Jazz Orchestra en nýjasta breiðskífa Teits, Songs From A Social Distance (2023) hefur að geyma samstarf Teits við stórsveitina í Árósum.



Ólöf Arnalds stundaði nám í tónsmíðum og nýmiðlum við Listaháskóla Íslands samhliða því að koma fram og hljóðrita tónlist með m.a. Múm, Slowblow og Mugison. Frumburður hennar sem söngvaskáld var hljómplatan Við og við en fimmta sólóplata hennar, Tár í morgunsárið, er nú væntanleg. Ólöf hefur komið fram víðsvegar um Evrópu, Bandaríkin og Ástralíu og hlotið lof í fjölmiðlum á borð við The New York Times, The Guardian og Rolling Stone. Hún hefur tvisvar unnið til Íslensku tónlistarverðlaunanna og einnig verið tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna. Ólöf hefur unnið að ýmsum tónlistarverkefnum með Skúla Sverrissyni og söng m.a. einsöng í verki hans Kaldur sólargeisli með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Meðal listafólks sem Ólöf hefur átt samstarf við eru Erna Ómarsdóttir, Ragnar Kjartansson, Víkingur Heiðar Ólafsson, Björk og Davíð Þór Jónsson. Ólöf hlaut ásamt Skúla Sverrissyni Grímuverðlaunin árið 2024 fyrir tónlistina í Saknaðarilmi.

Nive Nielsen er grænlenskt söngvaskáld og leikkona. Hún hefur komið fram á tónleikum víða um heim, ein síns liðs eða með hljómsveit sinni, Nive Nielsen & The Deer Children en hljómsveitin hefur sent frá sér breiðskífurnar Nive Sings! (2012) og Feet First (2015). Nive hefur leikið í kvikmyndum og þáttaröðum á borð við kvikmyndina The New World (2005) og The Terror (2018).

Deildu þessum viðburði

05. okt / kl. 15:00

Sjá meira

ÞÚ GÆTIR HAFT ÁHUGA Á

05. okt / kl. 15:00

Sjá meira