Ensemble Masques er skipað sex framúrskarandi hljóðfæraleikurum og einkennist spilamennska hópsins af einstaklega blæbrigðaríkri og líflegri túlkun sem og hárfínni nákvæmni og næmi fyrir tónlist fyrri alda. Ólgandi sköpunargleði, forvitni og orka samhliða yfirburða tækni og þekkingu hafa hrifið áheyrendur sem og gagnrýnendur víða um heim. Ensemble Masques hefur sent frá sér fjölda rómaðra hljóðritana sem hlotið hafa verðlaun og frábærar viðtökur í virtum miðlum svo sem í Gramophone. Tónleika sveitarinnar í Salnum ber upp á verndardegi heilagrar Sesselju, sérlegs verndardýrlings tónlistarinnar og varla hægt að fagna þeim degi á meira viðeigandi hátt. Hér er á ferð einstakur viðburður í íslensku tónlistarlífi sem enginn tónlistarunnandi ætti að láta fram hjá sér fara.
Tíbrá tónleikaröð er styrkt af Lista- og menningarráði Kópavogs.
Ensemble Masques:
Olivier Fortin – semball – orgel
Olivier Fortin nam sembal- og orgelleik við Tónlistarkonservatoríuna í Québec þaðan sem hann útskrifaðist með láði árið 1995 og hlaut í kjölfarið styrk til framhaldsnáms hjá semballeikurunum Pierre Hantai í París og Bob van Asperen í Amsterdam. Olivier Fortin hefur unnið til virtra verðlauna fyrir leik sinn og má þar nefna fyrstu verðlaun í Bach-keppninni í Montreal og snemmtónlistarhátíðinni í Bruges. Olivier Fortin hefur leikið inn á fjölda platna og komið fram á tónleikum um alla Evrópu sem og víða í Asíu, Ástralíu og Norður-Ameríku sem einleikari, túlkandi kammertónlistar og með sveitum á borð við Capriccio Stravagante, Tafelmusik Baroque Orchestra, Les Voix Humaines og Ensemble Masques.
Tuomo Suni – fiðla
Tuomo Suni lærði á barokkfiðlu í Finnlandi og hélt síðar áfram í mastersnám til Haag í Hollandi þaðan sem hann útskrifaðist 2005. Tuomo Suni kemur fram alþjóðlegum sveitum svo sem Opera Quarta, Capriccio Stravagante, Ricercar Consort, Vox Luminis og The English Concert og hefur gegnt leiðarastöðu hjá Alþjóðlegu barokksveitinni í Reykjavík. Tuomo Suni hefur spilað á tónleikum út um allan heim og í hljóðritum með fjölda annarra hljómsveita svo sem Barokksveitinni í Helsinki, Dunedin Consort og Bach Collegium í Japan.
Sophie Gent – fiðla
Sophie Gent er fædd í Perth í Ástralíu. Að lokinni BA-gráðu í fiðluleik hélt hún í framhaldsnám í Konunglegu tónlistarkonservatoríuna í Haag í Hollandi þaðan sem hún lauk mastersgráðu með láði árið 2005. Sophie Gent er afar eftirsóttur einleikari og túlkandi kammertónlistar og kemur reglulega fram sem konsertmeistari með sveitum á borð við Ricercar Consort, Il Gardellino, Capriccio Stravagante og Ensemble Masques auk þess að vera meðlimur í strengjakvartettnum Mito dell‘Arco sem gerir út frá Japan. Hún er jafnframt eftirsóttur kennari, hefur leitt masterklassa og námskeið og kennir barokkfiðluleik við Konservatoríuna í Boulogne-Billancourt í Frakklandi. Sophie Gent leikur á fiðlu sem smíðuð var af Jacob Stainer árið 1676.
Kathleen Kajioka – víóla
Kanadíski fiðlu- og víóluleikarinn Kathleen Kajioka nam við Eastman School of Music í Rochester. Hún á að baki fjölbreyttan feril sem fjölhæfur hljóðfæraleikari þar sem hún flytur tónlist allt frá miðöldum til okkar daga en þar skipar tónlist Mið-Austurlanda stóran sess. Kathleen spilar jöfnum höndum á barokkfiðlu og víólu og hefur komið víða fram með hljómsveitum svo sem Tafelmusik Baroque Orchestra, Aradia Ensemble, Theatre of Early Music og Arion Baroque Orchestra. Hún hefur leikið inn á fjölda hljóðrita sem komið hafa út hjá ATMA Classique, Alpha og Zig-Zag Territoire útgáfufyrirtækjunum. Kathleen Kajioka er hálfíslensk og hefur komið fram sem konsertmeistari með Kammersveit Reykjavíkur og Bachsveitinni í Skálholti. Hún kennir tónlist við Konunglegu tónlistarkonservatoríu Glenn Gould skólans.
Mélisande Corriveau – selló – bassagamba
Mélisande Corriveau er fjölhæf tónlistarkona sem leikur jöfnum höndum á selló, gömbu og blokkflautu en lauk BA-gráðu og síðar mastersgráðu og doktorsprófi í tónlistarflutningi frá Háskólanum í Montreal. Hún er eftirsóttur tónlistarflytjandi og hefur komið fram á tónleikum víða um Evrópu og Norður-Ameríku sem meðlimur í hljómsveitunum Ensemble Masques og Les Voix humaines auk fjölda annarra. Hún er jafnframt stofnandi og listrænn stjórnandi sveitarinnar L‘Harmonie des Saisons. Hún hefur leikið inn í kringum fimmtíu geisladiska sem komið hafa út hjá ATMA Classique, Analekta, Harmonia Mundi og fleiri útgáfufyrirtækjum sem hafa margir hverjir hlotið frábærar viðtökur og verðlaun.
Benoît Vanden Bemden – gamba – kontrabassi
Benoît Vanden Bemden er eftirsóttur kontrabassa- og gömbuleikari og leikur jöfnum höndum hljómsveitar- og kammertónlist. Hann er einn stofnmeðlima barokksveitarinnar Les Muffati og leikur með Ensemble Masques og Hathor Consort. Á meðal annarra sveita sem hann starfar að jafnaði með má nefna Vox Luminis, Ricercar Consort, Capriccio Stravagante, Stradivari, Le Caravansérail, Il Gardellino og Gli Angeli Genève. Hann lauk mastersnámi í gömbuleik frá Konunglegu tónlistarkonservatoríunni í Haag.