07. feb 19:30 – 21:00

Watachico á Vetrarhátíð

Kristofer Rodríguez Svönuson, bæjarlistamaður Kópavogs, kynnir glænýja tónlist undir nafninu Watachico á stórtónleikum í Salnum á Vetrarhátíð.

Í tónlist sinni kannar Kristofer tónlistarhefðir Suður-Ameríku á sinn persónulega máta og bræðir inn í hljóðheim sinn. Útkoman er slagverksdrifin spunatónlist sem þræðir línuna á milli síkadelískrar latíntónlistar og sálma.

Með Kristofer kemur fram stórskotalið tónlistarfólks, þau Birgir Steinn Theodórsson, Daði Birgisson, Daníel Helgason, Ingibjörg Turchi, Jón Arnar Einarsson, Matthías Hemstock, Örn Elías Guðmundsson (Mugison), Rósa Guðrún Sveinsdóttir, Sölvi Kolbeinsson og Tumi Torfason.

Hljómsveitin mun flytja nýjustu verk Kristofers ásamt lögum af fyrstu plötu hans, Primo, sem tilnefnd var til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2020.

Ókeypis er á tónleikana og öll hjartanlega velkomin á meðan húsrúm leyfir.

Tónleikarnir hefjast kl 20 en frá því um klukkan 19:30 munu félagar úr Skólahljómsveit Kópavogsbæjar flytja geggjaða stuðsveiflu í útsetningum Össurar Geirssonar í forsal Salarins.

Tónleikarnir eru hluti af Vetrarhátíð í Kópavogi. Viðburðurinn er styrktur af Menningar- og mannlífsnefnd Kópavogsbæjar.

Kristofer Rodríguez Svönuson er slagverksleikari og tónskáld af íslenskum og kólumbískum uppruna. Hann er fæddur árið 1988 og ólst upp í Kópavogi þar sem hann býr enn í dag. Árið 2014 útskrifaðist Kristofer úr FÍH. Fyrir hönd skólans tók hann þátt í ýmsum verkefnum bæði innanlands og erlendis og ber þar helst að nefna þáttöku í Young Nordic Jazz Comets með hljómsveitinni Two Beat Dogs og verðlaun á Nótunni 2013 með hljómsveitinni Gaukshreiðrið.

Kristofer lagði stund á slagverksnám á Kúbu undir leiðsögn David Lopez og í Kolumbíu undir leiðsögn Fabio Ortiz sem er af mörgum talinn fremsti slagverksleikari Suður-Ameríku um þessar mundir.

Kristofer hefur starfað með mörgu af helsta tónlistarfólki Íslands í jazz, heimstónlist og poppi og ber þar helst að nefna Mugison, KK, Hjálma, Cell7, Júníus Meyvant, Los Bomboneros, Lay Low, Tómas R. Einarsson, Stuðmenn, Sunnu Gunnlaugsdóttur, Skuggamyndir frá Býsans, Ragnheiði Gröndal, SJS Big Band, Sigríði Thorlacius, Berndsen, Kristjönu Stefánsdóttur, Stórsveit Reykjavíkur, Kiru Kiru, Ingibjörgu Turchi og Soffíu Björg.
Kristofer hefur einnig spilað með tónlistarfólki og tónskáldum á borð við Jack Steadman (Bombay Bicycle Club) og Nighmares On Wax.

Kristofer hefur samið og gefið út tónlist, einn og með öðru samferðarfólki sínu. Árið 2019 gaf hann út síma fyrstu plötu, Primo, sem gefin var út af Lucky Records og var platan tilnefnd sem plata ársins í opnum flokki á Íslensku tónlistarverðlaununum. Um þessar mundir er Kristofer að vinna að nýrri plötu.

Deildu þessum viðburði

Sjá meira

Sjá meira

ÞÚ GÆTIR HAFT ÁHUGA Á

Sjá meira