Íslensku einsöngslögin í Salnum

Íslenska einsöngslagið er fjársjóður sem Íslendingar þekkja ekki nógu vel en í vetur verður breyting þar á. Í Salnum verða átta tónleikar helgaðir íslenska einsöngslaginu þar sem kynnt verða bæði þekkt sem minna þekkt sönglög í flutningi margra okkar bestu flytjenda. Margrét Bóasdóttir er ein þeirra sem eru í forsvari fyrir Ári íslenska einsöngslagsins.

Dýrgripir í gullnámu tónlistararfsins

„Íslenska einsöngslagið er hjartfólgið verkefni Jónasar Ingimundarsonar píanóleikara sem hefur um árabil ekki bara safnað íslenskum einsöngslögum heldur líka verið óþreytandi að kynna þau fyrir Íslendingum. Honum finnst mikilvægt að landsmenn viti hvers konar dýrgripir leynast í þeirri gullnámu og vill ekki bara kynna þá heldur líka heiðra eins og best væri.“ Undirbúningshópur sem skipaður var fjórum píanóleikurum og ýmsum unnendum íslenska einsöngslagsins komst að þeirri niðurstöðu að ekki dygði minna en heilt tónleikaár til að heiðra þennan menningararf. Því verða fernir tónleikar á haustmánuðum og fernir á vormánuðum, þ.e. einir tónleikar í mánuði frá september fram í apríl. Tónleikatíminn er nokkuð óvenjulegur miðað við það sem íslenskir tónleikagestir eiga að venjast.

Matinee tónleikar

„Við ákváðum að fara nýjar leiðir hvað varðar tónleikatíma,“ segir Margrét. „Við höfðum mörg kynnst tónleikatíma erlendis sem kallast „matinee“ sem eru eins konar síðhádegistónleikar og niðurstaðan varð sú að tónleikarnir verða fyrsta sunnudag í mánuði klukkan hálf tvö. Það er hugsað þannig að þá getur fólk hist í bröns á huggulegu veitingahúsi í Kópavogsbæ eða lagt af stað á tónleika eftir hádegismat og endað svo í kaffi á kaffihúsi í bænum.“

Á hverjum tónleikum koma fram fjórir söngvarar, sópran, alt, tenór og bassi og tveir píanóleikarar. Í efnisvali verður aðallega stuðst við mikið safn íslenskra einsöngslaga sem Ísalög, útgáfufyrirtæki Jóns Kristins Cortes, gaf út í samráði við Jónas Ingimundarson og Trausta Jónsson en þeir deila ástríðu fyrir íslenska einsöngslaginu. „Þeir lögðu saman í að velja lög í átta hefti þannig að þetta er sérstaklega veglegt safn, fallega innbundnar bækur í glæsilegri öskju,“ segir Margrét en bætir við að auðvitað verði önnur lög líka á dagskrá sem helgist af vali flytjendanna. „Lagt er upp með að hver söngvari syngi fimm eða sex lög og þá ætti eitt að vera eftir lifandi tónskáld og annað eftir látið, eitt þekkt og annað óþekkt þannig að þetta markmið að heiðra íslenska einsöngslagið náist með því að sýna breidd og fjölbreytileika.“

Landslið einsöngvara mun sýna ást sína á íslenska einsöngslaginu í vetur og má þar nefna Sigrúnu Hjálmtýsdóttur, Gissur Pál Gissurarson, Kristinn Sigmundsson og Þóru Einarsdóttur.

Margrét vonast til að sem flestir leggi leið sína í Salinn á sunnudagseftirmiðdögum í vetur. „Hugsunin er að fólk hafi góðan tíma til að fara á tónleika og njóta þess sem Kópavogur hefur upp á að bjóða í matar- og kaffimenningu.“

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

27. apr / kl. 12:00

28. apr / kl. 20:00

03. maí / kl. 20:00

04. maí - 25. maí / kl. 14:00

08. maí / kl. 12:15

12. maí / kl. 13:30

24. maí / kl. 20:00

14. jún / kl. 20:00

Sjá meira

NÝJUSTU FRÉTTIR